Hælisleitandi stal síma frá barni — „Find my iPhone“ vísaði lögreglu á hann

Fjölmennt lögreglulið leitaði á fimmtudag í húsnæði fyrir hælisleitendur að Ásbrú eftir ábendingar um að karlmaður hefði stolið síma af barni í strætóskýli í Reykjanesbæ.

Að sögn Víkurfrétta hafði barnið hitt eldri mann í Nettó í Reykjanesbæ og spurt hann hvenær strætó færi. Maðurinn sagðist ekki skilja íslensku og elti svo börnin út og settist þétt upp að öðru þeirra og læddist í vasann á hettupeysu þess og tók símann. Barnið kom svo miður sín heim og sagðist hafa týnt símanum.  

„Foreldrar barnsins fóru á netið og í „Find my iPhone“ og sáu þá að síminn var í blokk á Ásbrú. Foreldrarnir fóru á lögreglustöðina og lögreglan brást frábærleg við að sögn móðurinnar og sendi af stað lögreglubíl og bað foreldrana um að elta. Fljótlega voru lögreglubílarnir orðnir fjórir og eftir mikla leit og síminn ekki fundinn var barnið kallað inn til að skoða myndir og myndskeið. Barnið gat borið kennsl á manninn og síminn fannst inni hjá honum,“ segir ennfremur í frétt Víkurfrétta.

Hælisleitendur ósáttir við lögreglu

Í kjölfar þessa atburðar hafa hælisleitendur kvartað yfir aðgerðum lögreglu á vettvangi.

Kvennablaðið, segir að séu myndbandsupptökur af vettvangi aðgerðarinnar skoðaðar „virðast lögreglumennirnir alfarið skeytingarlausir um íbúa hússins, mæta þeim af yfirlæti og svara athugasemdum við innrásina með tómlæti,“ eins og það er orðað.

Segir Kvennablaðið að lögreglan hafi verið án dómsúrskurðar eða leitarheimildar, en víkur í engu að þeirri staðreynd að síma hafði verið stolið af litlu barni og tekist hafði að upplýsa um málið og endurheimta þýfið.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort karlmaðurinn sem stal símanum verður ákærður eða fluttur úr landi.