Schengen-samstarfið hefur sætt fordæmalausum áskorunum undanfarin þrjú ár, í framhaldi af auknum fjölda flóttamanna frá árinu 2015, og Búlgaría, Rúmenía, Króatía og Kýpur vinna nú að undirbúningi fyrir fulla þátttöku í Schengen.
Þetta er á meðal þess helsta sem kemur fram í skýrslu sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra lét vinna og kynnti í Alþingishúsinu í dag.
Einnig standi til að búa til Entry/Exit kerfi til að reikna út dvalarlengd fólks inni á svæðinu og setja upp European Travel Information and Authorisation System (ETIAS), sem er forskráningarkerfi fyrir borgara með áritunarfrelsi, svipað og er í Bandaríkjunum, en fleiri og nánari upplýsingar er að finna í skýrslunni sjálfri.
Upplýsingar til að eyða misskilningi
Viljinn spurði dómsmálaráðherra hver hafi verið kveikjan að gerð skýrslunnar, og hún svaraði að enginn hafi beðið um hana á Alþingi, en utanríkisráðherra gefi árlega út skýrslu með upplýsingum um allt alþjóðasamstarf, nema Schengen-samstarfið, sem sé á könnu dómsmálaráðuneytisins.
Því sé ekki óeðlilegt að dómsmálaráðuneytið gefi jafnvel reglulega út skýrslu um þetta tiltekna samstarf.
„Mér hefur fundist gæta misskilnings [í umræðunni] um landamæraeftirlit, Schengen og hælisleitendur, það er búið að grauta þessu öllu saman,“ segir Sigríður, sem fannst vera tilefni til að setja upplýsingarnar fram í skýrslu, m.a. til að eyða þeim misskilningi.
„Hælisleitendur myndu t.d. alveg koma til Íslands þó að við værum ekki í Schengen. Við erum bundin af okkar eigin lögum og reglum, manngildum og alþjóðasáttmálum um flóttamenn. Við myndum ekkert losna undan því að afgreiða þeirra mál,“ segir Sigríður og bendir á FRONTEX og Dyflinnarreglugerðina sem, sem séu hluti af Schengen-samstarfinu og nýtist við að vísa burt og flytja þá sem fá synjun aftur til baka. „Því annars sætum við bara uppi með allt þetta fólk.“
Ávinningur af samstarfinu sé sparnaður og einfaldari málsmeðferð, og sé meðal annars einnig fólginn í því að mun ódýrara og auðveldara sé að finna fólk með fölsuð skilríki, þá sem séu skráðir eftirlýstir o.fl.
Þægilegri ferðalög og öryggissamvinna
Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu, annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkja og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felast einkum í samræmdum reglum um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og samvinnu lögregluliða meðal þátttökuríkjanna, þ. á m. rekstri Schengen-upplýsingakerfisins, til að tryggja öryggi borgaranna á Schengen-svæðinu, skv. skýrslunni.
Afnám persónubundins eftirlits á innri landamærunum feli í sér mikil þægindi fyrir þá sem ferðast, ekki þurfi hver og einn einstaklingur að gera grein fyrir sér og ferðum sínum við landamæravörð, en það sé útbreiddur misskilningur að fólk þurfi ekki að hafa með sér gild persónuskilríki samt sem áður. Einu gildu íslensku skilríkin á ferðum yfir landamæri séu vegabréf.
Mótvægisaðgerðirnar séu t.d. samræmdar reglur aðildarríkjanna um eftirlit á ytri landamærum til að tryggja öryggi innan svæðisins, umfangsmikil samvinna við Europol og lögregluembættin í aðildarríkjunum, m.a. með rekstri og notkun Schengen Information System (SIS) og SIRENE skrifstofanna sem notast við kerfið og flýta fyrir afgreiðslu mála sem annars yrðu að fara í gegnum réttarbeiðnir og ráðuneyti.
Samræmd útgáfa vegabréfa aðildarríkjanna, réttaraðstoð í sakamálum. Ísland sé einnig ekki skuldbundið af heildarstefnu Evrópusambandsins, en sé skuldbundið Dyflinnarreglugerðinni, Eurodac kerfinu og afmörkuðum reglum um útlendinga.