Hættir ekki á þingi: Leitaði til áfengisráðgjafa og sálfræðings

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

„Það er óskemmti­leg reynsla að hafa komið sjálf­um sér illi­lega á óvart. Það vita marg­ir af eig­in reynslu og aðrir mega trúa mér,“ segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann fer yfir stöðu sína vegna svonefnds Klaustursmáls og tilkynnir að hann hyggist halda áfram þingmennsku, en hann hefur verið í launalausu leyfi undanfarnar vikur.

„Eitt kvöldið í nóv­em­ber á síðasta ári fór­um við nokk­ur og sett­umst sam­an inn á veit­inga­hús. Öll eig­um við sæti á Alþingi og þetta kvöld stóð svo á að umræðu um fjár­lög var að ljúka og öll höfðum við þá lokið ræðum okk­ar um þau. Við sát­um sum lengi og höfðum áfengi um hönd. Við göspruðum út og suður, þar á meðal um stjórn­mál­in, stjórn­mála­flokk­ana og ýmsa stjórn­mála­menn. Ekki hvarflaði að neinu okk­ar að við vær­um að tala við fleiri en okk­ar litla hóp. Engu okk­ar datt í hug að nokk­ur yrði móðgaður eða sár af tali okk­ar,“ segir Bergþór.

„Viku síðar var sagt frá því op­in­ber­lega að sam­tal okk­ar hefði verið hlerað og hljóðritað. Ann­ar gest­ur á veit­inga­hús­inu hefði setið tím­un­um sam­an með upp­töku­tæki og komið upp­tök­unni á valda fjöl­miðla. Þeir fóru síðan að birta úr henni brot og brot og svo lengri og lengri kafla, allt auðvitað í nafni rétt­ar al­menn­ings til að vita hvernig þing­menn gætu talað þegar þeir væru ölvaðir. At­vinnu­leik­hús efndi strax til sýn­ing­ar þar sem allt mun hafa verið lesið upp. 

Margt kom illi­lega við mig í þessu. Mér fannst vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk tal­ar sam­an á veit­inga­hús­um. Mér fannst vont að fjöl­miðlar teldu sjálfsagt að birta slíkt drykkjuraus op­in­ber­lega og eig­in­lega enn verra hversu marg­ir voru ánægðir með hvort­tveggja. En verst af öllu fannst mér að heyra í sjálf­um mér,“ bætir þingmaðurinn við.

Ég er miður mín yfir mörgu sem ég sagði þetta kvöld

Hann kveðst hafa margt við upptökuna og við ýmis viðbrögð við henni að at­huga. Líka sé mjög at­hygl­is­vert hversu hart hafi verið bar­ist gegn því að þau sem hleruð voru, fái aðgang að gögn­um sem eru til og geti lík­lega sýnt hvernig var í raun staðið að því að hlera sam­tal okk­ar.

„En ekk­ert af þessu finnst mér þó eins slæmt og sumt af því sem ég sjálf­ur hef sagt þetta kvöld. Upp­tak­an var að vísu ólög­mæt, hún virðist klippt sam­an og margt í frétta­flutn­ingi af tali okk­ar og tals­máta hef­ur verið tekið úr sam­hengi, en í mín­um huga er aðal­atriðið að margt af því sem ég hef greini­lega sagt þetta kvöld er að mínu mati til skamm­ar, ekki aðeins sleggju­dóm­ar og fá­rán­leg­ar hug­leiðing­ar held­ur einnig stund­um með orðbragði sem kem­ur mér mjög illi­lega á óvart að ég hafi notað.

Þegar mér varð ljóst hvernig ég hafði í raun talað við fé­laga mína þetta kvöld ákvað ég að taka mér launa­laust leyfi frá þing­mennsku minni. Ég vildi ná átt­um og horfa í speg­il­inn á þenn­an mann sem þarna hafði talað með orðbragði sem ég hefði ekki getað ímyndað mér að hann ætti til. Um þetta hef ég síðan átt í sam­tali við bæði sjálf­an mig og marga sem meira vita. Ég hef talað við áfeng­is­ráðgjafa og leitað aðstoðar sál­fræðings og ég hef átt löng og hisp­urs­laus sam­töl við þá sem lengi hafa þekkt mig. Ég er miður mín yfir mörgu sem ég sagði þetta kvöld og sér­stak­lega yfir því að orð mín hafi orðið til þess að særa fólk, sem ég hef aldrei viljað særa, en varð skilj­an­lega sárt þegar upp­taka af sam­tal­inu var spiluð fyr­ir alþjóð. Ég ber ábyrgð á eig­in orðum og finnst virki­lega leiðin­legt að hafa látið þau verstu þeirra falla. Í okk­ar fá­menna hópi á veit­inga­hús­inu voru þessi orð ósmekk­legt en mein­ing­ar­laust raus yfir glasi, sem eng­an særði. Það var ekki okk­ar ákvörðun að þau skyldu bor­in á borð fyr­ir alla þjóðina. 

Í kosn­ing­un­um haustið 2017 var ég kjör­inn á þing og í þing­störf­um mín­um hef ég reynt að berj­ast fyr­ir hags­mun­um fólks­ins í því kjör­dæmi sem ég til­heyri og fyr­ir þeirri stefnu sem flokk­ur minn bygg­ist á. Ég hyggst gera þetta áfram eft­ir bestu getu. Ég fagna hverj­um þeim sem vill eiga við mig sam­starf um raun­veru­leg brýn mál­efni en mun ekki erfa það við neinn sem fer aðrar leiðir,“ segir Bergþór Ólason ennfremur í grein sinni.