Hættir sem bankastjóri í kjölfar mikilla útlánatapa

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, hefur sagt starfi sínu lausu. Stjórn bankans og Höskuldur hafa komist að samkomulagi um að hann sinni starfi bankastjóra fram til næstu mánaðarmóta.

Þetta kom fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar nú í kvöld. Bankinn hefur verið nokkuð í fréttum að undanförnu vegna stórra útlánatapa, t.d. vegna United Silicon, Primera og Wow air.

Samkvæmt heimildum Viljans stóð vilji til þess í hluthafahópnum að gera breytingar á yfirstjórn bankans og nýta betur þá sérstöðu sem felst í því að hann er sá eini af stóru viðskiptabönkunum þremur sem er ekki í ríkiseigu.

Með ákvörðun sinni nú tekur Höskuldur frumkvæðið og má gera því skóna að mikil sókn verði í það að verða eftirmaður hans í bankastjórastólnum.

„Nú eru um níu ár síðan ég kom til starfa hjá bankanum. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt á þessum árum. Fyrstu árin fólst verkefnið fyrst og fremst í að takast á við skuldavanda viðskiptavina bankans, bæði fyrirtækja og heimila. Þá var hlutfall vandræðalána hjá bankanum vel yfir 50% en er í dag í takt við það sem best gerist hjá fjármálafyrirtækjum í löndunum í kringum okkur. Við tók uppbygging bankans og Arion banki er í dag með skýra framtíðarsýn, öflugan mannauð og í forystu hér á landi þegar kemur að þróun fjármálaþjónustu,“ segir Höskuldur í tilkynningu.

Skráður á Íslandi og í Svíþjóð

„Eftir vel heppnað alþjóðlegt hlutafjárútboð á síðasta ári var bankinn skráður á markað í kauphallir á Íslandi og í Svíþjóð og er eignarhald bankans í dag vel dreift og hluthafar bæði innlendir og erlendir fjárfestar. Bankinn er fjárhagslega sterkur með traustan grunnrekstur og vel í stakk búinn fyrir það sem framtíðin ber í skauti sér. Ég tel þetta vera rétta tímann til að fela öðrum að taka við keflinu,“ bætir hann við.

„Ég vil þakka Höskuldi fyrir hans mikilvæga þátt í þróun og uppbyggingu Arion banka á síðustu níu árum,“ segir Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka.

Hans forysta og staðfesta hafa reynst bankanum vel í gegnum ýmsar áskoranir á þeim árum sem hann hefur verið við stjórnvölinn. Við í stjórn bankans virðum hans ákvörðun um að nú sé góður tímapunktur til að láta af störfum. Höskuldur skilar góðu búi þar sem bankinn nýtur sterkrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar á. Fyrir hönd stjórnar bankans þakka ég Höskuldi mikilvægt framlag í þágu bankans.“