Hafa 5G-fjarskiptanet áhrif á kórónuveiruna sem veldur COVID-19?

Samsæriskenningar af öllum stærðum og gerðum hafa sprottið upp kringum kórónuveirufaraldurinn. Ein slík, sem gengur ljósum logum á Netinu, er að nýjasta kynslóð farsíma (5G) hafi áhrif á veiruna og stuðli jafnvel að sýkingum milli fólks.

Á Vísindavef Háskóla Íslands er þeirri spurningu velt upp hvort tengsl séu þarna á milli.

Svarið er: „Nei, í stuttu máli sagt þá er ekkert til í því. Veiran sem veldur COVID-19 og 5G-fjarskiptanet eru tveir alveg ótengdir hlutir en sögusagnir um tengingu þarna á milli hafa þó komist á kreik.“

Í greininni, sem Jónína Guðjónsdóttir lektor í geislafræði ritar, er bent á að 5G-fjarskiptanet sé ný (fimmta) kynslóð fjarskiptatækni þar sem notuð er rafsegulgeislun. Orsök COVID-19 sé hins vegar veira sem smitast fyrst og fremst með dropa- og snertismiti á milli manna, til dæmis þegar fólk hnerrar eða hóstar og dopar með veirunni berast á okkur eða hluti í umhverfinu.

„Rafsegulgeislun flytur bara orku og getur ekki flutt efni. Því er útilokað að nota hana til að dreifa veirum eða öðru efni. Í raun er 5G-rafsegulgeislun í eðli sínu mjög lík eldri kynslóðum (4G og 3G) og áhrifin á mannslíkamann (og aðrar lífverur) þar með lítið breytt. Á vef Geislavarna ríkisins má finna fræðsluefni á íslensku um 5G. Það er ekkert sem bendir til þess að notkun 5G-rafsegulgeislunar sé skaðleg mönnum, sé farið er eftir lögum og reglum. Það stafar hins vegar raunveruleg hætta af veirunni sem veldur COVID-19,“ segir Jónína í grein sinni.

Hún bætir því við að þekking sé eitt besta vopnið í baráttunni við vágesti eins og veiruna sem veldur COVID-19.

„Því miður geta flökkusögur, eins og þessi um tengsl 5G og COVID-19, dregið athyglina frá því sem raunverulega skiptir máli, það er, að nota aðferðir sem sýnt hefur verið fram á að virka til að hefta útbreiðslu veirunnar. Það er ekkert dularfullt við það að COVID-19 og 5G finnist á sömu stöðum á jörðinni því hvort tveggja er algengara þar sem fólk er fleira. COVID-19 hefur náð til nánast allra landa en ekkert samhengi er á milli þess hve illa lönd verða fyrir barðinu á veirunni og þess hvort innleiðing 5G er hafin eða hve langt hún er komin.“