Hafa ánetjast bæði krónuátrúnaðinum og andstöðu við ESB

Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

„Auðvitað er samhengi í efnahagskerfinu. Handstýring er ekki algeng, þótt hún sé ekki fyllilega horfin. Handstýring er andstæða við markaðsstýringu,“ segir Þröstur Ólafsson hagfræðingur og fv. framkvæmdastjóri Verkamannafélagsins Dagsbrúnar (forvera Eflingar).

Hann ræðir um stöðuna á vinnumarkaði á fésbók og bendir á að í Sovétinu hafi handstýring verið reglan, þar var nánast engin markaðsstýring.

„Markaðurinn er prýðisgott tæki en afleitur húsbóndi, eins og sænskur krataforingi sagði. Niðurstaða jafnaðarmanna um blandað hagkerfi hefur ekki verið skoruð á hólm af neinu betra fyrirkomulagi. Innrás og árangur Nýfrjálshyggjunnar fór illa með samlögun samfélagsins og samhengið í efnahagskerfinu,“ segir hann.

„Þótt margt megi finna verðtryggingunni til foráttu, getur hún verið nauðsynleg til að vega upp á móti hættulegum skekkjum sem jafnvegislaust hagkerfi getur leitt til. Orsakavaldurinn er ójafnvægi sem íslenska krónan er látin jafna. Verðbólga og verðtrygging eru afleiðing. Meðan krónan er gjaldmiðill okkar, mun árangur almennra kjarasamninga alltaf verða leiðréttur eftirá við „Svigrúmið“ margfræga.“

Og Þröstur er ekki allt of hrifinn af því sem forystumenn verkalýðsfélaganna eru að segja þessa dagana:

„Það er dapurleg niðurstaða ef ný og fersk verkalýðsforysta reynist bæði hafa ánetjast Krónuátrúnaðinum og andstöðu við ESB. Ég óttast að niðurstaða samninganna verði eftir því,“ segir hann.