Hann barðist gegn ógnarstjórn kommúnismans

Í dag eru liðin 90 ár frá fæðingu prestsins Oskars Brüsewitz, prests og baráttumanns frá Austur Þýskalandi á tímum járntjaldsins, Berlínarmúrsins og ógnarstjórnar kommúnista.

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fv. vígslubiskup í Skálholti, ritar eftirfarandi minningarorð um Brüsewitz á fésbókina í dag:

„Til umhugsunar 30. maí 2019.  

Í dag, 30.maí 2019 eru 90 ár frá fæðingu Oskars Brüsewitz. Það er ekki líklegt að nokkurt ykkar sem lesið þessa færslu hafið heyrt það nafn nefnt áður. Hann var evangelisk-lúterskur prestur í Austur Þýskalandi.  Hann var gagnrýninn á stjórnvöld í DDR. Hann vann sérstaklega gott starf með börnum og unglingum, en einmitt það fór sérstaklega illa í stjórnvöld.

Hann talaði opinskátt um það hvernig stjórnvöld þrengdu sífellt að kristnu fólki í landinu og að öllu kirkjustarfi. Hann var undir stöðugri smásjá Stazi allt frá árinu 1956. Söfnuðurinn  hætti smám saman að þora að sækja kirkju hjá honum. 

Sr. Kristján Valur Ingólfsson.

Morguninn 18. ágúst  1976 bað hann dóttur sína að spila sálminn: So nimm denn meine Hände, en það er sálmur sem enn í dag er oft sunginn við jarðarfarir.  Svo keyrði hann frá Rippicha þar sem hann bjó og þjónaði  til  smábæjarins Zeitz í DDR.  Á þaki bílsins var áletrunin: Þetta er tilkynning  til allra: Kirkjan í DDR ákærir kommunismann fyrir ofbeldi í skólum landsins gegn börnum og unglingum. 

Þegar hann kom til Zeitz stillti hann sér upp hempuklæddur fyrir framan Mikjálskirkjuna í Zeitz og hellti yfir sig  20 lítrum af bensíni og kveikti í.  

Fjórum dögum síðar lést hann af sárum sínum. Fjölskyldan fékk ekki leyfi til að heimsækja hann. Hann var 48 ára.

Þessi atburður var tímamótaatburður í sögu kristninnar í DDR og í þróun stjórnmálanna sem leiddi til þess að múrinn féll 1989.“