Hannes Hólmsteinn aldrei kallaður til: Fullnægir ekki settum skilyrðum

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segist aldrei hafa verið kallaður til sem stjórnmálafræðingur til fréttaskýringa í Ríkisútvarpinu. Hann fullnægi alls ekki settum skilyrðum.

Atli Ásmundsson, fv. aðalræðismaður, beindi á dögunum spurningu þess efnis til Hannesar Hólmsteins og hann greinir frá svarinu á fésbókarsíðu sinni í dag.

Hannes Hólmsteinn skrifar:

Atli Ásmundsson beindi á dögunum spurningu til mín í spjalli á Netinu:

„RÚV er mjög duglegt við að kalla til stjórnmálafræðinga til fréttaskýringa og er það til fyrirmyndar. Sömu andlitin sjást þó oft. Það hafa samt alveg farið fram hjá mér viðtölin við þig. Eg fylgist vel með, en er þetta yfirsjón hjá mér, eða ertu sjaldan kallaður til?“

Ég svaraði honum um hæl: „Aldrei! Enda hef ég ekki setið á þingi fyrir Samfylkinguna eins og Baldur Þórhallsson eða tekið þátt í prófkjörum Samfylkingarinnar eins og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, og því síður sagði ég Morgunblaðinu upp, þegar Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri, eins og sumir aðrir samkennarar mínir í stjórnmálafræðideild. Og ég var ekki sammála því 1,8% landsmanna, sem studdi Icesave I (Svavarssamninginn), eins og þorri samkennara minna í stjórnmálafræði. Ég var með hinum 98% í liði og hlýt því auðvitað að teljast jaðar- frekar en miðjumaður. Ég fullnægi því alls ekki settum skilyrðum, held ég.“