Harður tónn í ályktunum Varðar: Skýr skilaboð frá grasrót flokksins

Albert Guðmundsson, nýkjörinn formaður Varðar, hefur setið á Alþingi sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hér er hann í ræðustól.

„Stjórnmálaflokkar þurfa alltaf að vera að rýna til gagns. Þeir þurfa að bregðast við breyttum aðstæðum hverju sinni, kalli aðstæður á breytingar,“ segir Albert Guðmundsson lögfræðingur og nýkjörinn formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í samtali við Viljann, en athygli vekur harður tónn sem er í ályktunum félagsins eftir fund um sl. helgi. Þar er þess krafist tekið verði upp tímabundið eftirlit á landamærum Íslands vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi, auk þess sem fullyrt er að allsherjarreglu sé „tvímælalaust ógnað með straumi hælisleitenda“ og að fjölmargir frá Venesúela hafi misnotað réttinn til alþjóðlegrar verndar og því sé óhjákvæmilegt að neita fólki þaðan um komu til Íslands nema viðkomandi hafi fyrst aflað sér vegabréfsáritunar til Íslands fyrst.

Óhætt er að segja, að þarna kveði við miklu harðari tón en áður hefur sést í ályktunum Sjálfstæðisflokksins um þessi mál. Albert segir að hafa beri í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hafi reynt að kynna breytingar á síðustu árum, en þær hafi gjarnan mætt mikilli andstöðu frá samstarfsflokkum, sem og stjórnarandstöðuflokkum, enda hafi ríkisstjórnir síðustu ára verið þriggja flokka stjórnir.

„Það er hlutverk grasrótarinnar að veita kjörnum fulltrúum aðhald og það er á þeirri forsendu sem Vörður, stærsta kjördæmis- og fulltrúaráð flokksins og raunar landsins alls, sendir þessi skýru skilaboð,“ segir Albert, en hann var á sínum tíma formaður Heimdallar og varaþingmaður flokksins. Hann tekur við formennsku af Agli Þór Jónssyni, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Auk Alberts eru í stjórn þau Bryndís Ýr Pétursdóttir, Einar S. Hálfdánarson, Guðfinna Ármannsdóttir, Janus Arn Guðmundsson, Óttar Guðjónsson, Rúna Malmquist og Sigurður Helgi Birgisson.

Ályktun aðalfundar Varðar um bætta landamæragæslu

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ályktar að neiti einstök flugfélög að afhenda íslenskum tollyfirvöldum upplýsingar um farþega, beri að beita þau viðurlögum sem við brotunum liggja.

Greinargerð: Í 51. grein a í tollalögum segir m.a.: „Fyrirtækjum sem annast flutning farþega og vöru til og frá landinu er skylt að afhenda tollyfirvöldum upplýsingar um farþega og áhöfn sem nýttar eru við tolleftirlit og til að koma í veg fyrir og rannsaka brot á lögum þessum og öðrum lögum sem lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds ber að framfylgja.“

„Tollyfirvöldum, lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds er heimilt að skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn í þágu eftirlits, greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum gegn ákvæðum laga þessara og ákvæðum annarra laga.“
„Ráðherra kveður nánar á um umfang upplýsingaskyldunnar, afhendingu á upplýsingum til tollyfirvalda þar á meðal um form og tímasetningu, og meðhöndlun á þeim í reglugerð. Þar skal einnig kveðið nánar á um fyrirkomulag upplýsingaskipta milli tollyfirvalda lögreglu og annarra handhafa lögregluvalds.“

Nokkur erlend flugfélög hafa ekki sinnt ofangreindri lagaskyldu sinni. EFTA ríkin og þar með Ísland er ekki hluti tollasvæðis Evrópusambandsins. Neiti einstök erlend flugfélög að afhenda tollyfirvöldum upplýsingar um farþega, ber því að beita þau þyngstu viðurlögum sem við brotunum liggja.

Ályktun aðalfundar Varðar um bætta landamæragæslu

Ályktun aðalfundar Varðar um bætta landamæragæsluVörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ályktar að taka beri upp tímabundið eftirlit á landamærum Íslands vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi.

Greinargerð: Þrettánda grein laga um landamæri heimilar 13. gr. tímabundið eftirlit á innri landamærum. Ráðherra er heimilt að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi. Ákvörðun þess efnis skal tekin á grundvelli áhættumats frá ríkislögreglustjóra. Umfang og tímalengd innra eftirlits skal ekki vera meira en nauðsynlegt er til að bregðast við ógninni. Fjölmörg fordæmi eru fyrir beitingu sambærilegra reglna meðal annarra aðildarríkja Schengen samstarfsins. Þar hefur ásókn í alþjóðlega vernd verið talin meðal þess sem heimilar tímabundið eftirlit á innri landamærum. Raunar miklu minni vandi en Ísland stendur frammi fyrir. Hér er allsherjarreglu tvímælalaust ógnað með straumi hælisleitenda.

Í ljósi misnotkunar fjölmargra frá Venesúela á rétti til alþjóðlegrar verndar fyrir erlendra ríkisborgara, er óhjákvæmilegt að neita fólki þaðan um komu til Íslands nema viðkomandi hafi fyrst aflað sér vegabréfsáritunar til Íslands. Þannig verði Schengen vegabréfsáritun ekki tekin gild meðan það neyðarástand sem hér hefur skapast vegna straums hælisleitenda varir. Það neyðarástand á sér engan líka í Evrópu.

Ályktun aðalfundar Varðar um breytingar á lögum um útlendinga

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ályktar að sett verði í forgang á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga og þau verði samþykkt á þessu vorþingi. Mikilvægt sé að löggjöfin hérlendis sé sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Ásamt því er mikilvægt að dómsmálaráherra vinni áfram að nauðsynlegum lagabreytingum til að koma á lokuðum búsetuúrræðum.