Harka færist í málin: SA segja atkvæðagreiðslu um verkfall ólöglega

Samtök atvinnulífsins hafa skorað á Eflingu – stéttarfélag að stöðva nú þegar atkvæðagreiðslu um verkfall sem koma á til framkvæmda 8. mars næstkomandi. SA telja ólöglega staðið að atkvæðagreiðslu um verkfallið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá SA. Samtökin segja að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sé heimilt að láta vinnustöðvun einungis ná til ákveðins hóps félagsmanna en þá sé ákvörðun tekin með atkvæðum þeirra sem vinnustöðvun er ætlað að taka til.

„Samkvæmt fréttum áætlar Efling að verkfallið nái til 700 félagsmanna en félagið hefur hins vegar boðið yfir 8000 félagsmönnum að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallið. SA telja það fyrirkomulag ólögmætt enda mætti með þeim hætti fá verkfall samþykkt jafnvel þótt allir þeir sem vinnustöðvun er ætlað að taka til greiði atkvæði gegn verkfalli.

Verði Efling ekki við áskorun Samtaka atvinnulífsins munu SA höfða félagsdómsmál gegn stéttarfélaginu. Niðurstaða dómsins mun liggja fyrir áður en verkfalli er ætlað að koma til framkvæmda,“ segir í yfirlýsingunni.

Atkvæðagreiðslan er hafin

Á vef Eflingar kemur fram, að atkvæðagreiðsla um tillögu að verkfalli húshjálpa í hótelum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, hófst í morgun kl. 10 og lýkur kl. 22.00, fimmtudaginn 28.2 2019.

Tillagan er tímabundið verkfall frá klukkan 10.00 að morgni 8. mars 2019 til miðnættis sama dags.

Kosningin fer fram á vefnum. Kosning utan kjörfundar fer fram á skrifstofu Eflingar. Bíll mun einnig keyra milli vinnustaða og safna utankjörfundaratkvæðum.

Kjörgengir í kosningunni eru félagar í Eflingu sem vinna skv. kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi og sem rann út þann 31.desember 2018.