„Ég er mjög bjartsýnn með þessar tölur og í rauninni mjög ánægður með þessar tölur,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag, þar sem hann var spurður út í viðbrögð hans við þróun á útbreiðslu Kórónuveirunnar hér á landi undanfarna daga.
Staðfest nýsmit sl. sólarhring voru 66 hér á landi, samkvæmt því sem fram kemur á covid.is. Alls hafa því 1.086 greinst með veiruna hér á landi.
Þórólfur segir ljóst að tekist hafi að sveigja kórónuveirufaraldurinn af leið, hann sé í fremur hægum vexti en ekki veldisvexti eins og hefði mátt óttast ef ekki hefði verið gripið til margvíslegra ráðstafana. Útbreiðslan nú sé í samræmi við svokallaða bestu spá um þróun mála, en það sé samt áhyggjuefni og verra að hún fylgi verstu spá hvað varðar alvarlegustu veikindin.
Tíu liggja á gjörgæsludeild Landspítalans, þar af sjö í öndunarvél, að því er fram kom í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans á fundinum.
„Við höfum ekki lent í svona miklum kúf eins og margar aðrar þjóðir og ég held að það sé því að þakka að við gripum til tiltölulega harkalegra aðgerða strax og fyrsta tilfellið kom upp hér á landi. Þær eru held ég að skila árangri,“ bætti sóttvarnalæknir við.
Hann sagði eðlilegt að velta fyrir sér, hvað svo? Hvernig eigi að aflétta þessum takmörkunum? Það verði að gerast með mjög hægum hætti svo veiran blossi ekki aftur upp í samfélaginu. Á meðan veiran geysi erlendis og eitthvað hér, sé hætta á að hún fari aftur á fulla ferð aftur ef við pössum okkur ekki.
„Það verður okkar áskorun næstu vikurnar og mánuðina,“ sagði Þórólfur og bætti við að þessa dagana standi yfir vinna við að teikna slíka áætlun svo unnt sé að vinna eftir henni með framhaldið. Aðgerðir sóttvarnayfirvalda séu í sífelldri endurskoðun og í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu liggi fyrir hvort og þá hve lengi núgildandi samkomubann og takmörkun á skólastarfi verði framlengt.