100 ár eru á þessu ári frá því að reglulegt frímúrarastarf hófst á Íslandi, en það var þann 6. janúar 1919 sem fyrsta íslenska frímúrarastúkan, Edda, var vígð við hátíðlega athöfn.
Edda og raunar allt frímúrarastarf á Íslandi, heyrði undir yfirstjórn dönsku Frímúrarareglunnar allt til ársins 1951, þegar Frímúrarareglan á Íslandi var stofnuð. Fyrsti Stórmeistari hennar, en svo nefnist æðsti embættismaðurinn, var Sveinn Björnsson, forseti Íslands.
Núverandi Stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi er Valur Valsson.
Aldarafmælis frímúrarastarfs á Íslandi hefur verið og verður minnst með margvíslegum hætti á næstu mánuðum.
Í kvöld kl. 20:00 verður sérstök hátíðarsamkoma Frímúrarareglunnar í Eldborgarsal Hörpu þar sem 100 ára starfsins verður minnst í tali og tónum.
Hátíðarsamkoman verður vegleg í tali, tónum og myndum og hefur stór hópur frímúrara unnið að dagskrá hennar um missera skeið.