Hefur ekki örlað á pólitískum þrýstingi

Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi Almannavarna. / Júlíus Sigurjónsson LRH.

Læknar, aðrir vísindamenn og sérfræðingar Embættis landlæknis, sóttvarnalæknis og Almannavarna hafa fengið að vinna sína vinnu í tengslum við baráttuna við Kórónaveiruna Covid-19 hér á landi óáreittir og án nokkurs pólitísks þrýstings frá ráðamönnum, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag.

Víða um heim má sjá pólitíska forystumenn, jafnvel forsætisráðherra eða forseta, halda daglega blaðamannafundi um aðgerðir gegn útbreiðslu veirunnar og eru þá læknar og vísindamenn í bakgrunni. Hér á Íslandi hefur þessu verið öðruvísi farið og hefur þríeyki frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sóttvarnalæknir og landlæknis nokkurn veginn átt sviðið og verið í forgrunni þegar kemur að upplýsingagjöf til almennings.

Þórólfur sagðist sérstaklega vilja hrósa íslenskum stjórnvöldum í þessum efnum og sínum ráðherra, þ.e. heilbrigðisráðherra sem hann ætti í miklum og daglegum samskiptum við.

„Hún hefur verið alveg gríðarlega góður og öflugur stuðningsmaður og það hefur ekki örlað á pólitískum þrýstingi, hvað mig varðar,“ sagði hann.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, tók undir þetta og sagði að það hefði komið skýrt fram í fundum þeirra með ráðherrum ríkisstjórnarinnar að þeir vilji hafa þetta svona. Þau beri hina pólitísku ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru, en teymið hafi fundað aukinheldur með fulltrúum stjórnarandstöðunnar og finni að á bak við þau sé gríðarleg samstaða.

„Við erum mjög stolt af því að vera treyst með þessum hætti,“ bætti Víðir við.