Ástæðan fyrir þeim mikla fjölda, sem týnt hafa lífi vegna Kórónaveiru-faraldursins, má hugsanlega rekja til bakteríusýkinga sem ekki er unnt að lækna með hefðbundnum sýklalyfjum. Um er að ræða stofna af bakteríum sem eru orðnir ónæmir fyrir flestum sýklalyfjum. Um 10-30% sjúklinga sem leggjast inn á gjörgæsludeild vegna veirusýkingar í lungum þróa í kjölfarið einnig með sér bakteríusýkingu í öndunarvegi og lungum.
Um þetta ritar blaðamaðurinn Erik Martiniussen í norska Aftenposten, en hann gaf út bókina „Stríðið við bakteríurnar“ eða „Kriget mot bakterierna“ á frummálinu, fyrr á þessu ári.
Meirihluti sjúklingana á Ítalíu og í Kína höfðu glímt við banvæna lungnabólgu eftir að hafa smitast af Kórónaveirunni. Erik Martiniussen vísar í læknatímaritið The Lancet þar sem fram kemur að helmingur smitaðra sem létust vegna kórónusmits og lungnabólgu í Kína, höfðu fengið tvöfaldan skammt af sýklalyfjum fyrir andlát. Þessar tölur sýna fram á ákveðna fylgni á milli endurtekinna bakteríusýkinga og andláts.
Ástæðan gæti verið sú að bakteríusýkingin ræðst á mikilvægar stofnfrumur í öndunarveginum. Þessar frumur eru lífsnauðsynlegar til að vefirnir í lungunum geti endurnýjað sig.
Á meðan stofnfrumurnar ná að enduruppbyggja sýkta vefi í öndunarveginum eru batalíkur góðar, jafnvel eftir alvarlega veirusýkingu á borð við Covid 19. En ef stofnfrumurnar deyja eru batalíkur litlar sem engar.
Í flestum tilvikum dugar einfaldur skammtur af hefðbundnum sýklalyfjum til að halda bakteríusýkingum frá lungunum. Þá nær ónæmiskerfið að vinna óheft á veiruni. Þetta er raunin á Norðurlöndunum, en hvers vegna ekki á Ítalíu?
Erik Martiniussen skrifar að árlega deyja um 11 000 manns á Ítalíu vegna bakteríusýkinga á borð við E.coli sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Opinberar tölur úr sama flokki í Noregi eru 69 andlát á ári. Samkvæmt European Disease Control Agency (ECDC) eru ónæmar bakteríur eru búnar að hertaka flest sjúkrahús á Ítalíu. Geta því flestir sjúklingar dregið að sér bakteríusýkingu sem er ónæm fyrir sýklalyfjum vegna dvalarinnar á sjúkrahúsinu.
Í greininni er þó ítrekað að Kórónaveiran er hættuleg og getur dregið fólk til dauða ein og sér, en til að skilja óvenju háa dánartíðni í löndum á borð við Spán og Ítalíu sé nauðsynlegt að rannsaka frekar tengsl fjölsýkinga úr stærra samhengi.