Hefur veiran búið um sig í samfélaginu án þess að hennar yrði vart?

Dr. Kári Stefánsson prófessor og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Alma Möller landlæknir sagði á blaðamannafundi Almannavarna, Sóttvarnalæknis og landlæknis fyrr í dag að til skoðunar hafi verið hvort Kórónaveiran hafi búið um sig í samfélaginu án þess að hennar yrði vart.

Enn sé ekki nægilega vitað um málið, en sýni hafi verið rannsökuð á veirufræðideild Háskólans. Kári Stefánsson prófessor í læknisfræði og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafi haft samband við heilbrigðisyfirvöld og boðist til að skima fyrir þessari veiru.

Þar verði þá um að ræða fólk sem er með erfið öndunareinkenni, en hefur hvorki verið á skilgreindum áhættusvæðum erlendis né tengist fólki sem er nýkomið þaðan.

„Með þessu móti fengjum við betri upplýsingar. Þetta yrði auðvitað einstakt á heimsvísu,“ sagði landlæknir ennfremur og bætti við að mjög góð aðstaða væri hjá Íslenskri erfðagreiningu til að finna Kórónaveiruna.