Heilbrigðara fjármálakerfi og lækkun vaxta er þjóðhagslega hagkvæm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Ástandið á vinnumarkaði er verulegt áhyggjuefni en um leið felst í því sögulegt tækifæri. Það er vegna þess að tvennt fer saman, annars vegar einstakar aðstæður til að ráðast í endurskipulagningu fjármálakerfisins og hins vegar vilji a.m.k. hluta verkalýðsforystunnar til að gera viðræður um þau mál að meginefninframlagi ríkisins. Enda er ekkert sem ríkisvaldið gæti gert sem myndi skipta eins miklu máli til framtíðar og bæta kjör landsmanna eins mikið og það að laga fjármálakerfið og lækka vexti.”

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í samtali við Viljann nú í kvöld, þegar útlit er jafnvel fyrir að samningaviðræðum verði slitið í Karphúsinu á morgun og boðað til verkfallsaðgerða.

Hvað hefur þú fyrir þér í því að verkalýðshreyfingin gæti verið til í að semja á þessum forsendum?

„Ég hef hlustað á yfirlýsingar forystumanna þeirra ræða þessi mál og átt samtöl við þá sjálfur. Þar er fólk sem gerir sér grein fyrir hversu miklar kjarabætur myndu felast í þessu. Mér heyrist menn líka vera algjörlega meðvitaðir um að þetta gerist ekki á einum degi en í ljósi þess hvað þetta er mikið hagsmunamál séu þeir tilbúnir í viðræður um hvernig þetta geti þróast til lengri tíma. Í raun væri þetta ný tegund af þjóðarsátt þar sem stjórnvöld og verkalýðshreyfingin myndu sameinast um heildarplan og vinna saman að því að fylgja því eftir.”

Er ekki hætt við því að þetta yrði of flókið til að hægt væri að ná samstöðu um það?

„Það tel ég alls ekki vera. Við í Miðflokknum lögðum fram heildarplan um endurskipulagningu fjármálakerfisins fyrir síðustu kosningar. Auðvitað ætlast ég ekki til þess að því verði fylgt í einu og öllu en það sýnir þó að það er vel raunhæft að setja saman heildaráætlun og fylgja henni eftir. Í raun var planið okkar para framhald áætlunar sem þegar var hafin og hafði skilað ótrúlegum árangri, m.a. mesta efnahagslega viðsnúningi nokkurs lands a.m.k. í seinni tíð.”

Áttu við haftalosunina?

„Já, haftalosunina og allt sem því tengdist. Því var alltaf ætlað að verða bara fyrsta skrefið í að koma á heilbrigðu fjármálakerfi á Íslandi. Að mínu mati var fyrri hlutin sá erfiðari og hann er nú frá og fyrir vikið einstakar aðstæður til að fylgja því eftir.”

Þú hefur engu að síður gagnrýnt að vikið hafi verið frá planinu eins og þú sást það og gagnrýnt mikið yfirtöku Arion banka, meðfarð aflandskróna og fleira. Er ekki einfaldlega orðið of seint að fylgja planinu sem þú lagðir upp með?

„Já, það er reyndar rétt að það er orðið erfitt að gera þetta á nákvæmlega þann hátt sem ég talaði fyrir en þó er ég viss um að það sé hægt að aðlaga aðgerðirnar að stöðunni eins og hún er núna. Það mun alla vega ekki koma betra tækifæri til að laga fjármálakerfið á Íslandi en það sem nú er til staðar. Aðalatriðið er að menn skoði þetta heildstætt.”

Ríkisstjórnin hefur sagt að ekki sé svigrúm til að ganga lengra en það sem þau hafa þegar boðið. Telur þú ástæðu til að ætla að þau muni hverfa frá því?

„Það er nú einmitt eitt af því besta við þetta að það kallar ekki á aukin ríkisútgjöld. Heilbrigðara fjármálakerfi og lækkun vaxta er þjóðhagslega hagkvæm og skilar sér betur en nokkuð annað bæði til launþega og fyrirtækja án þess að það kosti ríkissjóð peninga. Þetta mun einnig gagnast ríkissjóði með aukinni verðmætasköpun og auknum skatttekjum. Endurskipulagning fjármálakerfisins er allra hagur,” segir Sigmundur Davíð ennfremur.