Heimkomusmitgát í fimm daga og með annarri skimun tekur við eftir helgi

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna. / Lögreglan.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnarlæknis, að frá og með 13. júlí nk. skuli þeir sem eru búsettir hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar og hafa valið að fara í sýnatöku við komuna til landsins viðhafa svokallaða heimkomusmitgát í fimm daga eða þar til niðurstöður úr síðari sýnatöku liggja fyrir. Er þetta gert til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófi á landamærum geti leitt til stærri hópsmita á Íslandi.

Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að um einstaklinga sem ber að viðhafa heimkomusmitgát gildi að þeir skuli:

• ekki fara á mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir,
• ekki vera í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæma hópa,
• gæta að tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra,
• ekki heilsa með handabandi og forðast faðmlög,
• huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Einstaklingum sem ber að viðhafa heimkomusmitgát er hins vegar heimilt að:

• nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað,
• fara í bíltúra,
• fara í búðarferðir,
• hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.

Einstaklingar sem skulu viðhafa heimkomusmitgát þurfa að fara í aðra sýnatöku fjórum til fimm dögum eftir komu til landsins þeim að kostnaðarlausu. Fái þeir neikvæða niðurstöðu úr síðari sýnatöku ber þeim ekki lengur að viðhafa heimkomusmitgát en jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar.

Þótt þessar breytingar á reglugerð nái eingöngu til íslenskra ríkisborgara og þeirra sem búa hér á landi eru fjölskyldur þeirra og aðrir sem hafa víðfeðmt tengslanet á Íslandi hvattir til að fylgja sömu reglum.

Í hjálögðu minnisblaði sóttvarnarlæknis kemur einnig fram að stefnt sé að óbreyttu fyrirkomulagi á skimun á landamærum út júlí. Lagt er til að opnunartími vínveitingastaða verði óbreyttur út júlí og að fjöldatakmarkanir verði óbreyttar út ágúst, en sú ákvörðun verði þó í sífelldri endurskoðun miðað við ástand faraldursins hér á landi.

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, nr. 580/2020.

Minnisblað sóttvarnarlæknis.