Heimurinn grænkar af mannavöldum

Heimurinn er grænni nú en fyrir 20 árum skv. upplýsingum frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA. 

Ef til vill kemur það sumum á óvart, en Indlandi og Kína má að mestu þakka fyrir þessa þróun. Öfugt við algengar hugmyndir um að löndin vilji aðeins stunda rányrkju fyrir efnahagslegan ávinning, þá má nú þakka þeim grænkun jarðarinnar á undanförnum tveimur áratugum, að því er tímaritið Forbes greinir frá.

Þessi tvö fjölmennustu ríki heims hafa ýtt úr vör metnaðarfullri skógrækt og stutt við framfarir í landbúnaði sem stuðla einnig að mikilli gróðuraukningu í gegnum ræktun matvæla og tækni sem gefur fleiri uppskerur árlega.

Indland á met í gróðursetningu, en 800 þúsund indverjar plöntuðu 50 milljónum trjáa á einum sólarhring þarlendis í júlí árið 2016, en landið setti sér metnaðarfull markmið í kjölfar Parísarsamkomulagsins, um uppgræðslu lands og því að draga úr mengun. Gróðuraukning stuðlar m.a. að loftgæðum og endurheimt villts lífs. Kínverjar leggja einnig áherslu á verndun og stækkun skóglendis í viðleitni sinni við að bæta jarðveg og draga úr mengun og loftslagsbreytingum.

Nýlegar niðurstöður NASA, sem voru birtar í tímaritinu Nature Sustainability, sýna samanburð háskerpu gervihnattamynda frá miðjum níunda áratugnum til dagsins í dag. Til að byrja með voru vísindamenn sem skoðuðu þær þó óvissir um hvað olli breytingunni og veltu fyrir sér hvort hún væri til komin vegna hlýnunar á jörðinni, hærra rakastigs eða aukins koltvísýrings (CO2) í andrúmsloftinu.

Eftir frekari rannsóknir á gervitunglmyndunum tóku vísindamennirnir eftir því hve grænar grundir Kína og Indlands voru orðnar miðað við annarsstaðar. Væri grænkunin tilkomin fyrst og fremst vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðarinnar, væri gróskan ekki að takmörkuð við landamæri ríkja eins og bersýnilegt er á myndunum. Auk þess ættu svæði hærra yfir sjávarmáli að grænka hraðar en lægri svæði, og þar sem sífreri í jörðu þiðnar eins og í Síberíu.

Kortið hér að ofan sýnir hlutfallslega grænkun (gróðuraukningu) og brúnkun (gróðureyðingu) um heim allan. Sjá má að Indland og Kína eru orðin töluvert græn í samanburði.

En myndin sýnir ekki allt, lönd sem hafa haldið skógum sínum og gróðri tiltölulega ósnortnum, hafa eðli málsins samkvæmt, minna pláss til skógræktar en þau sem hafa eytt skógum.

Vísindamenn segja þessa þróun þó ekki duga til að vega upp á móti tjóninu sem verður við eyðingu frumskóga á jörðinni og benda á að aukin rækt á nytjaplöntum geti valdið vatnsþurrð og mengun.