Heitavatnslaust næstu daga: Mun reyna á samtakamátt og samheldni íbúa

/Almannavarnir.

Seint í gærkvöldi eða um kl. 22:30 kom í ljós að hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni fór í sundur undir miðju hrauni þar með er ljóst að lögning ber ekki heitt vatn lengur til Reykjanesbæjar. Væntanlega laskaðist lögnin við hraunrennslið í fyrradag og í gærkvöldi, þegar aukið var við vatnsdælingu, virðist hún hafa brostið endanlega. Staðsetningin er undir miðju hrauni, á þeim kafla þar sem það er þykkast, og því útilokað að ráðast í viðgerðir þar.

Þetta segir í tilkynningu frá Almannavörnum. Þegar er hafinn undirbúningur að lagningu nýrrar lagnar en ljóst er að sú framkvæmd mun taka einhverja daga. Ekki er hægt að áætla nákvæmari tímasetningar á þessari stundu.

„Afleiðingar af eldgosinu sem hófst um sexleytið í gærmorgun er að sýna sig að verða verulegar og mun hafa mjög mikil áhrif á daglegt líf íbúa á Reykjanesi næstu dagana. Því er óhætt að segja að næsta vika mun taka á samtakamátt og samheldni íbúa.

Það er ljóst að næstu dagar og nætur geta því orðið kaldar í húsum á Suðurnesjum. Mörg eru búin að tryggja sér rafmagnshitara og er það ítrekað að minna fólk á að nota þau raftæki sparlega, eða eftir þörfum og taki þar með tillit til annarra. Í kvöld kom það vel í ljós hvaða áhrif álagspunktar á kerfið geta haft þegar rafmagn fór af stórum hluta svæðisins.

Áður hefur komið fram að rafdreifikerfi HS Veitna er ekki hannað til húskyndingar og því þolir kerfið ekki mikla álagspunkta. Það er ekki hægt að segja það nægilega oft hve mikilvægt það er fyrir rafkerfið á Suðurnesjum að fara sparlega með rafmagnið. Það mun skipta sköpum fyrir næstu daga.“