Helgi Hrafn lagði til frestun orkupakkans fram á haust

Helgi Hrafn Gunnarsson, fv þingmaður Pírata. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði til við upphaf þingfundar í dag, að frekari umræðum og afgreiðslu á orkupakka þrjú frá Evrópusambandinu verði frestað fram á haust, svo unnt sé að afgreiða önnur mál sem eru nú stopp í þinginu vegna málþófs Miðflokksins sem staðið hefur yfir undanfarna daga.

Hann er fyrsti þingmaður Pírata, sem ljær máls á frestun orkupakkans fram á haust. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hvatti til þess í morgun að málinu yrði frestað svo þjóðin fengi meira andrými til að melta það.

Á dögunum setti Birgitta Jónsdóttir, fv. leiðtogi Pírata, fram efasemdir um málið og lagði til að því yrði frestað.

Helgi Hrafn sagðist fylgjandi málinu og ekki beri alltaf að gagnrýna málþóf, en margvíslegar rangfærslur hefði þó verið settar fram í þessu máli, sem myndi taka marga mánuði að leiðrétta í umræðunni.

Eins og Viljinn skýrði frá í morgun, biðlaði forseti Alþingis til þingmanna Miðflokksins að ljúka umræðunni um orkupakkann í morgun, svo unnt sé að leiða í ljós lýðræðislegan vilja þingsins í atkvæðagreiðslu.

Þingfundur hófst núna kl. 15.30 og má gera því skóna að hann standi fram á kvöld, jafnvel fram á nótt og jafnvel til morguns — miðað við þingstörfin undanfarna daga.