Hellulögn með trjádrumbum vekur athygli

Tréhellur við Landakotstún.

Fella þurfti töluvert af grenitrjám í fyrra á vegum skrúðgarða Reykjavíkur og bolirnir hafa verið nýttir, m.a. varð til dreki sem er staðsettur í Bjarkarlundi Hljómskálagarðsins og efni í hellur. Hellulögn með trjádrumbum er meðal nýjunga í ár og má sjá það til dæmis á Landakotstúni á stöðum þar sem fólk labbar ósjálfrátt yfir þótt ekki sé gert ráð fyrir því.

„Það er þá betra að gera göngustíg úr tréhellum til að koma í veg fyrir að fólk stígi á blómin,“ segir Guðlaug F. Þorsteinsdóttir, rekstrarstjóri skrúðgarðanna á Klambratúni, á vef Reykjavíkurborgar.

Skrúðgarðastöðin á Klambratúni þjónar Vesturbæ, Miðbæ, Austurbæ að Elliðaám sunnan Suðurlandsbrautar og Laugavegi að Snorrabraut. Verkbækistöðin sér um allt viðhald skrúðgarða á þessu svæði, slátt, hirðing trjágróðurs, útplöntun sumarblóma og niðursetningu haustlauka í skrúðgörðum. Einnig um hirðingu allra blómabeða og umhirðu á blómakerum og -körfum, bæði á opnum svæðum og stofnanalóðum.

Á svæðinu eru tólf skrúðgarðar, 85 þúsund blóm í sumar og 152 blómakörfur en í júní þurfti að nota mikinn tíma í að vökva. „ Sumarið er fallegt,“ segir Guðlaug og bendir á að blómakörfurnar séu í sex útgáfum. Einnig eru 103 menningarnæturblómaker, þar af eru um 50 í stórum kerum sem dreift er út um alla borg. Á vorin eru settar niður páskaliljur á vorin, sumarið skartar auðvitað sumarblómum og á haustin er sígrænn gróður og skrautkál sem haustskreyting.

Skrúðgarðarnir eru Garðaflöt, Grundargerði, Klambratún, Einarsgarður, Hljómskálagarður, Hallargarður, Mæðragarður, Útitaflið, Austurvöllur, Fógetagarður og Landakotstún. Unnið hefur verið að því að endurgera nokkra garða t.d. Garðaflöt. Þá þarf að slá og tína arfa. Austurvöllur er sleginn tvisvar í viku en aðrir garðar á sjö til átta daga fresti. „Það er mikill metnaður í starfsfólkinu, það vill bara gera vel og sjá afrakstur verka sinna,“ segir Guðlaug sem er afar stolt af starfsfólkinu og hvetur borgarbúa til að fara í blómaskoðunarferð.