Tryggja þarf súrefni til hagkerfisins innanlands á komandi mánuðum þar sem afar ósennilegt er að opnast muni fyrir flæði fólks til og frá landinu fyrr en hægt verður að bólusetja fólk gegn kórónuveirunni, að sögn Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins.
Í Hlaðvarpi ViðskiptaMoggans segir hún að höfuðáherslu verði að leggja á að kveða Kórónuveiruna niður.
„Núna er það svo að við munum ekki sjá fram á að fá erlenda ferðamenn um nokkra hríð vegna þess að í þessari krísu verða takmarkanir á fólksflutningum vegna þessarar heilbrigðisvár sem við erum að fást við. Við verðum að einblína mjög á innlenda hagkerfið okkar. Hvernig við eflum innlenda eftirspurn og einkaneyslu,“ segir hún.
Lilja bendir á að umfangsmiklar ferðatakmarkanir fram að bólusetningu geri það að verkum að hagkerfið verði að hálfu lokað og hálfu opið. Lífsnauðsynlegt sé að tryggja vöruflutninga til og frá landinu, bæði fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki og eins þá sem þurfa að koma aðföngum hingað.