Herskáar yfirlýsingar fjölga ekki krónum í launaumslaginu

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ætli 2018 sé ekki árið sem Íslendingar áttuðu sig á mikilvægi flugsins, bæði hversu efnahagslega mikilvægt það er en einnig hversu tækifærin geta verið mikil á komandi árum,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í samtali við Viljann um árið sem er að renna sitt skeið á enda.

„Þetta var ár sameininga og eigendabreytinga á stórum fyrirtækjum. En þetta er einnig ár þar sem við vorum í einskonar biðstöðu. Eftir ótrúlegan uppgang síðustu ára, sem tryggt hefur meiri kjarabætur en dæmi eru um, er engu líkara en að nú haldi margir að sér höndum – bíði og voni að það takist að sigla kjarasamningum í höfn.“

Hvaða fyrirtæki/einstaklingar hefur að þínu mati  skarað framúr á árinu?

„Við erum svo gæfusöm þjóð að eiga marga einstaklinga sem eru tilbúnir til að leggja allt sitt undir til að byggja upp fyrirtæki. Sum þessara fyrirtækja eru að brjóta múra úreltrar hugsunar og skipulagningar, eins og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er að gera með fjarþjónustufyrirtækinu Kara Connect. Kerecis, er dæmi um nýsköpunarfyrirtæki sem á rætur sínar á landsbyggðinni og sækir hráefni sitt til sjávarútvegsins.  Fyrirtækið hefur náð ótrúlegum árangri við að þróa lækningavörur þar sem fiskroð er notað til að græða sár og styrkja líkamsvefi. Kara og Kerecis eru aðeins tvö dæmi um vaxtabrodda í íslensku atvinnulífi. Eitt sinn voru Marel og Össur slíkir  vaxtarbroddar.“

Er hætta á verkföllum og alvarlegum vinnudeilum hér á landi eftir áramót?

„Það er alltaf hætta á gripið verði til beittra vopna, líkt og verkfalla eða vinnustöðvana. En ég er að eðlisfari bjartsýnn og hef trú á því að aðilar vinnumarkaðarins beri gæfu til þess að taka höndum saman um að nýta þau tækifæri sem vissulega eru fyrir hendi að treysta lífskjörin enn frekar, ekki síst þeirra sem lökust hafa kjörin. Eitt er að minnsta kosti víst; herskáar yfirlýsingar fjölga ekki krónunum í launaumslögum landsmanna.“

Hvað telur þú að muni einkenna árið 2019?

„Ef skynsemin fær að ráða getur komandi ár orðið hagfellt. Það mun reyna á atvinnurekendur ekki síður en leiðtoga launafólks, að ná samningum sem byggja á efnahagslegum veruleika og tryggja þar með bætt lífskjör. En það mun einnig reyna á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana. Það bíða risavaxin verkefni fyrir utan kjarasamninga: Ný lög um Seðlabanka Íslands og mótun nýrrar peningastefnu, ákvörðun um skipulag fjármálamarkaðarins þar sem ríkið verður með skipulegum hætti að draga úr áhættu skattgreiðenda, og síðast en ekki síst má nefna uppstokkun á tekjuskattskerfi einstaklinga.

Á sama tíma liggur fyrir að ekki verður gengið lengra í aukningu útgjalda ríkisins og því verður verkefnið fremur að tryggja hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna. Það verður fyrst og síðast gert með því að ýta undir nýsköpun og nýja hugsun í opinberum rekstri, útvistun verkefna og aukið samstarf hins opinbera og einkaaðila.“