Tilkynnt hefur verið um hertar sóttvarnarráðstafanir í framhalds- og háskólum í ljósi minnisblaði sóttvarnarlæknis frá í gær, 3. október 2020. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með skólameisturum framhaldsskóla og rektorum háskólanna í dag og kynnti breytingar sem um ræðir. Unnið er að uppfærslu leiðbeininga til skólanna um áhrif nýrra sóttvarnarráðstafana á ýmsar hliðar skólastarfsins og verða þær gerðar aðgengilegar á vef ráðuneytisins hið fyrsta, þær byggja á auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi.
„Skólafólk er úrræðagott og aðlögunarfært við krefjandi aðstæður. Vonir standa til þess að þetta verði aðeins tímabundin ráðstöfun og vel takist á næstu tveimur vikum að ná utan um fjölgun smita. Samtakamáttur og sveigjanleiki mun koma okkur út úr þessu, mikilvægt er að við hugum öll vel að nemendum í nærumhverfinu og hvert að öðru,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra á vef ráðuneytisins í kvöld.
Hertar aðgerðir taka gildi á miðnætti og gilda um land allt. Ráðgert að þær muni gilda næstu tvær vikurnar, til og með 19. október 2020. Líkt og aðrar sóttvarnarráðstafanir eru þær þó háðar stöðugu endurmati. Helstu breytingar frá fyrri ráðstöfunum eru að hámarksfjöldi í rými fer úr 100 einstaklingum í 30 manns í skólum.
Nemendur í staðnámi framhalds- og háskóla þurfa nú að vera í að hámarki 30 manna hópum í kennslustofum en mega nota sömu innganga og sameiginleg rými þar sem ekki er höfð löng dvöl. Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa, en þurfa að gæta að sóttvörnum. Almennt er mælst til grímunotkunar í framhalds- og háskólum en grímuskylda er þar sem ekki er hægt að virða reglur um hámarksfjölda og nálægðarreglu um minnst 1 metra fjarlægð, s.s. í sameiginlegum rýmum og við innganga.