Hið ameríska Ísland og hið kínverska Ísland árið 2052

Stórskipahöfn fyrir risaskip í siglingum um norðurslóðir er áformuð í Finnafirði.

Danskur prófessor lýsir því hvernig uppbyggingin í Finnafirði geti orðið til þess að skipta þjóðinni í tvennt. Og það hefur ekkert með umhverfismál að gera.

Í væntanlegri bók sem ber nafnið 2052 – Svipmyndir úr framtíðinni, lýsir dr. Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor í stjórnmálafræði við heimskautaháskólann í Tromsö í Noregi, því hvernig Ísland geti litið út árið 2052. Þar tekur hann útgangspunkt í mikilli uppbyggingu á Norðausturlandi, sem teygir sig allt frá Seyðisfirði til Akureyrar. Lýsingin er í formi smásögu þar sem blaðamaður ræðir við sögumanninn inn á litlum Dim Sum veitingastað í kínahverfinu á Akureyri.

Smábæirnir í kringum Finnafjörð og alla leiðina til Akureyrar og suður til Egilstaða og Neskaupstaðar hafa upplifað ótrúlega efnahagsuppbyggingu. Kínverjarnir hafa stækkað flugvöllinn á Akureyri, sem núna er með bein flug til Evrópu, Kína og Rússlands og styrkt Háskólann á Akureyri sem í dag er með fjölda kínverskra námsmanna. Enda er svo komið að Akureyri er komið með sitt eigið Kínahverfi, þar sem við sitjum núna. Landshlutinn er jafnframt með óhemju hraðvirkt Huawei fjarskiptakerfi. Allt eru þetta hlutir sem Reykjavík í aldaraðir hefur sagt að ekki séu til peningar fyrir eða ekki sé þörf á að setja upp í þessum landshluta,”  segir Rasmus í sögunni sem ber nafnið 601 Kínahverfi. 

En af hverju veldur þessi mikla uppbygging því að þjóðin skiptist í tvennt? Jú, þar koma inn stjórnmálalegir og efnahagslegir hagsmunir, mun frekar en umhverfissjónarmið. Rasmus bendir á mikilvæga stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu þar sem umskipunarhöfnin í Finnafirði er þungamiðjan.

Finnafjörður skiptir þjóðinni í tvennt

En á meðan Finnafjörður styrkir Ísland mjög í alþjóðlegum skilningi bendir Rasmus á hvernig innlend stjórnmál geta veikt landið verulega.

„Hið ameríska Ísland og kínverska Ísland hafa smám saman fjarlægst hvort annað meira og meira, líka þegar kemur að þjóðerni og sjálfsvitund með blönduðum íslensk-amerískum fjölskyldum ísuðvestri og íslensk-kínverskum fjölskyldum í norðaustri. Hið ameríska Ísland upplifir sig sem frjálslynt og lýðræðislegt og leggur mikla áherslu á að upphefja þau gildi sín. Hið ameríska Ísland upplifir sjálft sig sem hið sanna Ísland og hið kínverska Ísland sem valdnýtt og brenglað af Kína, sem útlent og ólýðræðislegt ríki. Hið kínverska Ísland upplifir hið ameríska Ísland sem Ísland hinnargömlu, spilltu yfirstéttar-Reykjavíkur, sem fyllt hefur eigin vasa á kostnað samfélagsins og landsbyggðarinnar. Hið kínverska Ísland álítur sig í fullum rétti til að velja sér sína eigin vini, þegar þeirraeigin landsmenn og – konur hafa svikið þau ítrekað. Tungumál, matur og menning hefur smámsaman fjarlægst eftir því sem vestrænir ferðamenn, skiptinemar og blandaðar amerískar fjölskyldur hafa safnast á suðvesturhornið, og tilsvarandi þróun orðið með Kínverjum og Rússum á norðausturhorninu,” 

segir Rasmus í sögunni, og heldur síðan áfram:

„Hið kínversk-ameríska valdajafnvægi á Íslandi heldur landinu saman, en með herkjum þó. Ísland hefur í auknum mæli tvöfalt innviðakerfi með annarsvegar ameríska og hins vegar kínverskafjarskiptatækni sem byggir á farsímakerfum, interneti og gervitunglum sem eru kyrfilega aðskilin.

Efnahagslega og skattalega ríkir útbreitt vantraust á milli hinna amerískt og kínverskt styrktu stjórnmálaflokka sem munnhöggvast með ásökunum um spillingu og að þeir gangi erinda sinnaerlendu bakhjarla og feli umbunina í skattaskjólum. Verkalýðurinn í hvorum landshluta sem haldið var utan við efnahagsuppbygginguna hefur í auknum mæli verið snúið á sveif með lýðskrumurum sem ráðast harkalega gegn spilltum yfirstéttum hins landshlutans og erlendum bakhjörlum þeirra.Ísland er orðið að hringiðu hinnar nýju heimsmyndar í Norður-Atlantshafi.”

Sérsvið Rasmus Bertelsen er stjórnmál í kringum Norðurheimskautið og samskiptin við Kína, en Ísland er honum ekki ókunnugt heldur þar sem hann ólst upp á Íslandi og gekk í íslenskan skóla. 

24 framtíðarsögur

Sagan er ein af 24 sögum sem birtast í bókinni 2052 – Svipmyndir úr framtíðinni. Sögurnar eiga það allar sameiginlegt að gerast á Íslandi árið 2052 og hafa það hlutverk að varpa ljósi á hvert Ísland getur þróast á næstu 30 árum og hvaða afleiðingar ákvarðanir sem við tökum í dag geta haft til lengri tíma. Sumar sögurnar lýsa heldur nöturlegri framtíðarsýn og er ætlað að vera okkur víti til varnaðar, á meðan aðrar lýsa bjartsýni og jákvæðni og er ætlað að vera okkur innblástur og hvatning til góðra verka.

Hjörtur Smárason er ritstjóri bókarinnar.

„Það er engin leið að spá fyrir um framtíðina með vissu,” segir Hjörtur Smárason, ritstjóri og upphafsmaður bókarinnar, „sem er ástæðan fyrir því að ég hef valið smásöguformið til að koma þessum hugmyndum um framtíðina á framfæri. Þær eiga því ekki að vera raunsönn lýsing á því hvernig framtíðin er, heldur tekur hver saga fyrir einhvern ákveðinn þátt og veltir upp ákveðnum spurningum sem er kannski hollt fyrir okkur að hugsa um áður en það er orðið of seint. Markmiðið með bókinni er að skapa umræðu um hvert Ísland stefnir og hver framtíðarmarkmið þjóðarinnar ættu að vera.“

Fjöldamargir einstaklingar hafa skrifað sögur í bókina og er þar að finna þingmenn og frumkvöðla, prófessora og nemendur, rithöfunda og leikstjóra, mannfræðinga, lögreglu og tæknitröll meðal annarra. Viðfangsefnin eru jafn mörg og höfundarnir eru margir og er fjallað um loftslagsmál, innflytjendur, tæknibyltinguna, landsbyggðamál, sjávarútveginn, ferðaþjónustuna og fleira. 

Nú stendur yfir fjármögnun á útgáfu bókarinnar á Karolinafund og er hægt að panta eintak þar þangað til á morgun laugardaginn 4. maí. Áætluð útgáfa er síðan í byrjun júní.

Hér er listi yfir höfundana: 

Amal Tamimi, framkvæmdastjóri og fyrrum þingkona
Andri Ottesen, nýsköpunarfræðingur
Ásdís Thoroddsen, leikstjóri
Bala Kamallakharan, frumkvöðull
Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður
Birgir Grímsson, iðnhönnuður
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðukona rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Heiður Anna Júlíudóttir Arnarsdóttir, nemi
Hjálmar Gíslason, frumkvöðull
Hrönn Hrafnsdóttir, loftslagsráðgjafi Reykjavíkurborgar
Ingimar Oddsson, gufupönkari
Jóhann Þórsson, markaðsstjóri
Jón Sigurður Eyjólfsson, blaðamaður
Júlía Birnudóttir Sigurðardóttir, mannfræðingur
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor
Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent
Margrét Pála Ólafsdóttir, frumkvöðull
Maríanna Friðjónsdóttir, fjölmiðlakona
Nanna Árnadóttir, blaðamaður
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi
Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor
Smári McCarthy, þingmaður
Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri
Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans
Þórhildur Jetzek, tæknitáta og gervigreindarfræðingur