„Hið brennandi hús” ennþá besta trygging Evrópu gegn fasisma og stríði

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, segir að innan tíðar muni hinn staðfasti og ágæti orkumálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, mæla fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans á Alþingi og málið muni renna í gegn.

Í færslu á fésbókinni nú í kvöld segir Össur að Heimssýn sé algjörlega búin að gefast upp varðandi hinn „langþvælda en sárasaklausa þriðja orkupakka“.

„VG mun láta sig síga úr umræðunni enda grasrót flokksins skítsama hvort hún vaknar innaná eða utaná Evrópusambandinu. Forysta flokksins myndi aldrei setja þátttöku í ríkisstjórn í uppnám út af pakkaræflinum. 

VG mun láta sig síga úr umræðunni enda grasrót flokksins skítsama hvort hún vaknar innaná eða utaná Evrópusambandinu.

Á Alþingi mun Miðflokkurinn halda uppi málamyndamálþófi. Hann kemst samt ekki frá þeirri staðreynd að formaður flokksins bar á sinum tíma fram tillögu um að Ísland gengi í Evrópusambandið. 

Styrmir mun einn síns liðs gnaga skjaldarrendur og reyna að sjá fingraför “djúpríkisins” á öllu saman. Í þessum tilefnislausa slag töldu jafnvel gagnmerkir samtíðarmenn að Ísland gæti breyst í bananalýðveldi gegnum orkupakkann. Það minnti dálítið á lúnar fraseringar um “hið brennandi hús”. 

Evrópusambandið lifir samt góðu lífi. Innan tíðar losnar það við breska húslekann sem gagnstætt því sem margir telja er líklegt til að styrkja þróun þess til framtíðar. 

Á þeim brothættum tímum sem við lifum er “hið brennandi hús” ennþá besta trygging Evrópu gegn fasisma og stríði,“ segir Össur Skarphéðinsson.