Hildur Björnsdóttir: „Margir sjálfstæðismenn hundfúlir núna“

Hildur Björnsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, rýndi opinskátt í landslagið í stjórnmálunum í þætti Dagmála Morgunblaðsins í gær. Hún kvaðst sakna þess að sitt fólk í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafi tækifæri og svigrúm til að tala fyrir stefnu sinni og hugmyndum. „Maður upplifir að þau séu dálítið læst inn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi,” sagði hún.

Það komi í sjálfu sér ekki á óvart, en ef til vill sé þolinmæði kjósenda á þrotum:

„Þegar farið er af stað í svona ríkisstjórnarsamstarf ólíkra flokka er það fyrirséð að lítið afgerandi gerist og flokkarnir ná ekki sínum stærstu málum í gegn. Þess vegna eru margir Sjálfstæðismenn hundfúlir núna. Við höfum ekki verið að ná okkar málum í gegn og margir kjósendur skilja ekki hvaða erindi við höfum í þessari ríkisstjórn lengur.”

við sáum það hvernig bankasalan til dæmis hafði hræðileg áhrif á fylgi okkar Sjálfstæðismanna í borginni

Tímasetningar geta skipt öllu

Hún segir tímasetningar geta skipt öllu í stjórnmálum, og að það hafi sitt að segja um að nú fljúgi Samfylkingin með himinskautum í könnunum. „Kristrún Frostadóttir gengur inn í umhverfi þar sem er mikil óánægja með ríkisstjórnarsamstarfið og það er pláss fyrir hana, pláss fyrir nýja orku og hún er klár og fær í sínu verkefni.

Í borginni þá sáum við það í aðdraganda síðustu kosninga – við vorum með punktmælingar hjá Gallup – og við sáum það hvernig bankasalan til dæmis hafði hræðileg áhrif á fylgi okkar Sjálfstæðismanna í borginni. Ég geri ekki lítið úr gengi Framsóknarflokksins eða frammistöðu oddvita þeirra – en þegar nafnalistinn um kaupendur birtist og allt sprakk út á þinginu þá bara hrapaði okkar fylgi og við klóruðum í bakkann alla baráttuna þó bankasalan kæmi okkur á sveitarstjórnarstiginu í rauninni ekkert við. Svo má deila um það hversu sanngjörn sú umfjöllun öll saman var. En þarna skipti tímasetningin öllu. Framsókn hafði auðvitað yfir að skipa nýju og mun öflugra framboði en oft áður en þau náðu að sópa að sér miklu fylgi og fólk getur verið heppið og óheppið í þessu efni.”

Framsóknarflokkurinn hlaut 18,7 prósent fylgi í sveitarstjórnarkosningunum 2022. „En þau ganga svo inn í þennan meirihluta, flokkurinn sem lofaði breytingum, og fylgið hrapaði næstu mánuði samkvæmt könnunum. Niður í 8% og neðar,“ sagði Hildur.

„Nýr borgarstjóri er svona að ydda sig þessa dagana og segja fyrir hvað hann stendur og hvað hann vill gera. Margt af því hugnast okkur Sjálfstæðismönnum vel, en honum verður fátt úr verki ef hann hefur ekki meirihlutann á bakvið sig. Orð eru eitt og verk eru annað. Við þekkjum það nú úr rekstri borgarinnar undanfarin ár, það hefur ýmsu verið lofað og klippt á marga borða en hefur verið minna um efndir,” bætti hún við.

Dagmálaþáttinn má finna hér, en hann er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.