Hin heilaga þrenning: Hugur, líkami og sál sem þarf að huga vel að

Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur og jógakennari.

Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur og jógakennari, bar sem varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, tillögu undir meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur í fyrravetur um að hugleiðsla/núvitund verði innleidd í alla leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar.

Eins og Viljinn skýrði frá fyrr í dag, hafa nokkur hundruð skólar í Bretlandi ákveðið að taka hugleiðslu og núvitund upp í námskrá sína, þar sem talið er að slíkt hafi jákvæð áhrif á nemendur og andlega líðan þeirra.

„Tillagan komst ekki á dagskrá borgarstjórnar. Ákveðið var að setja tillöguna inn í vinnu við menntastefnu borgarinnar sem þá var í vinnslu. Hins vegar veit ég ekki til þess að hún sé komin til framkvæmda — þó ég viti til þess að a.m.k. einn grunnskóli, Álftamýraskóli sé að kenna núvitund eða jóga,“ segir Eva í samtali við Viljann. Auk þess hefur Viljinn fengið ábendingu um að Ingunnarskóli í Grafarholti hafi tekið upp kennslu í núvitund í samstarfi við Núvitundarsetrið.

Í greinargerð með tillögunni sagði:

„Kostir hugleiðslu og núvitundar eru margvíslegir. Rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif á líðan og benda til þess að hugleiðsla dragi úr stressi, hafi góð áhrif á heilsu, efli einbeitingu og dragi úr kvíða, þunglyndi, svefntruflunum og svo framvegis. Þá hafa sumar rannsóknir sýnt fram á aukin afköst nemenda, sköpunarkraft og aukna virkni heilastöðva.

Þeir sem stunda hugleiðslu reglulega segjast margir lifa hamingjusamara lífi eftir að þeir byrjuðu að hugleiða og búa við meiri innri ró og meðvitund. Þá hefur djúp öndun áhrif á taugakerfið og gagnast bæði börnum og okkur á ýmsan hátt, ekki síst á sviði tilfinninga. Það er jafn mikilvægt að kunna að meðhöndla sjálfan sig, hugsanir og tilfinningar og geta slakað á, eins og það er að hreyfa sig og borða góðan og hollan mat. Hollur hugur, líkami og sál eru einkunnarorð sem gott er að lifa eftir.“

Þar sagði ennfremur að streita og álag séu áhrifaþættir í heilsu barna og ungmenna en í nútímasamfélagi virðist áreitið aukast jafnt og þétt og vega að nauðsynlegu jafnvægi barna.

Börn verja nú löngum stundum í snjalltækjum sem hefur áhrif á andlega líðan þeirra.

„Þá hafa nýlegar rannsóknir bent til þess að tilfinningavandi eins og kvíði og þunglyndi hafi aukist verulega hjá börnum og unglingum síðastliðin ár.

Að innleiða hugleiðslu/núvitund inn í skóla landsins hefur því bæði forvarnargildi og hjálpað þeim sem finna fyrir því nú þegar. Þá hafa ADHD samtökin jafnframt bent á núvitundaræfingar til að draga úr einkennum sjúkdómsins og rannsóknir á notkun samfélagsmiðla geta aukið kvíða samkvæmt niðurstöðum rannsókna og greininga.

Það er lykilatriði að við setjum forgrunn að búa í samfélagi þar sem okkur líður vel, af því leiðir að við viljum leik- og grunnskóla þar sem börnum líður vel. Að leita inn á við og efla slökun og tilfinningagreind okkar með tækjum eins og hugleiðslu og núvitund er einn þáttur í því. Tillaga þessi er því liður í að sporna við auknum kvíða og þunglyndi barna og unglinga og að stuðla að aukinni hamingju barna í samfélaginu.“

Eva, segist í samtali við Viljann, fagna ákvörðun breskra skólayfirvalda og finnst tilvalið að endurvekja hugmyndina hér á landi, þar sem rannsóknir hafi sýnt að kostir hugleiðslu eru margvíslegir m.a. til að styrkja tilfinningagreind, ná tökum á kvíða og stressi.

„Núvitundarkennsla hefur ótvírætt forvarnargildi enda læra börn með því að finna styrkinn í sjálfum sér. Aukinheldur er núvitundin, sem er tegund af hugleiðslu, ekki tengd neinum trúarbrögðum þó hugleiðslan komi upprunalega frá austurhlutaheimsins. Þar hefur þetta verið stundað í einhverju formi í árþúsundir – bæði í Indlandi – Suðaustur Asíu og Kína.

Nú hefur núvitundin verið að færa sig til vestursins og sífellt fleiri að iðka það — leita inn á við og styrkja sig andlega — í samfélagi sem hefur hingað til mikið verið byggt á gáfnafari. Þetta tvennt þarf að vera í jafnvægi, ég hef trú á því að það sé lykillinn að aukinni velsæld í samfélaginu. Þetta er ekki síður mikilvægt en hreyfing og gott mataræði — enda hin heilaga þrenning — hugur, líkami og sál sem þarf að huga vel að. Og það er allt tengt,“ segir hún.

Ingunnarskóli í Grafarholti hefur tekið upp kennslu í núvitund í samstarfi við Núvitundarsetrið.