„Hin nýja verkalýðshreyfing“ hafnar brauðmolakenningu

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur einnig verið áberandi í starfi Sósíalistaflokksins. Hér er auglýsing með honum frá því í fyrravor. / Ljósmynd: Facebook.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sem tilkynnti um fyrstu verkfallsaðgerðir í gær eftir að upp úr slitnaði í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara, segir að kominn sé tími á nútíma hagstjórn og „hin nýja verkalýðshreyfing“ eins og hann kallar það, ætli sér ekki að vinna eftir brauðamolakenningunni eins og dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur boði hana.

Sjá einnig: Fyrsta vinnustöðvunin: Þrif falla niður á hótelum og veitingastöðum 8. mars

Ásgeir, sem er fv. hagfræðingur Dagsbrúnar (forvera Eflingar) í tíð Guðmundar Jaka, sagði í pistli sem birtist í Viljanum í gær og lesa má hér að neðan, að yfirleitt hafi íslensk verkalýðsfélög sýnt hörku í uppsveiflu en hófsemi í niðursveiflu.

Viðar Þorsteinsson gerir ekki mikið fyrir þessar röksemdir Ásgeirs og segir í færslu á fésbókinni að hagfræðingurinn hafi bæði verið starfsmaður Arion banka og Gamma, en lætur þess ekki getið að hann er forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Við ætlum að fá steikina, kartöflurnar, sósuna og rauðkálið — sem við sjálf sköpuðum.

„Skrif Ásgeirs lýsa sérlega vel því sem heitir „brauðmolahagfræði“ og er gott íslenskt orð. Það þýðir að vesalingarnir skulu fá að tína upp í sig svolítið meira af gólfinu þegar veislan stendur sem hæst, en um leið og verr árar hjá yfirstéttinni skulu þeir gjöra svo vel að herða sultarólina,“ segir Viðar.

„Það sem Ásgeir skilur ekki er að hin nýja verkalýðshreyfing hefur hafnað þessari nálgun. Nýja verkalýðshreyfingin skilgreinir ekki kröfur sínar út frá því hvernig viðrar á fjármálamörkuðum. Hún skilgreinir kröfur sínar útfrá þörfum fólksins og krefst þess að fá sinn eðlilega og sanngjarna hlut í auðæfum samfélagsins.

Brauðmolahagfræðin er liðin tíð. Við ætlum ekki lengur að éta upp úr gólfinu. Við ætlum að fá steikina, kartöflurnar, sósuna og rauðkálið — sem við sjálf sköpuðum. Það er okkar „nútíma hagstjórn.“ Get used to it, Ásgeir,“ segir framkvæmdastjóri Eflingar ennfremur.