HIV-sýking einkum meðal útlendinga — lekandi sækir í sig veðrið

Á fyrstu níu mánuðum ársins greindust 26 einstaklingar með HIV-sýkingu hér á landi, þar af 21 karl og 5 konur, allir af erlendu bergi brotnir nema einn sem var íslenskur ríkisborgari.

Þetta kemur fram í nýjum Farsóttarfréttum, sem Embætti Landlæknis gefur reglulega út. Þar segir að HIV-sýking greinist einkum meðal útlendinga en margir af þeim sem greinist séu með þekkta HIV-sýkingu og komnir á meðferð áður en þeir koma til landsins.

Athygli vekur að lekandi heldur áfram að sækja í sig veðrið og greinist áfram helst hjá íslenskum körlum (80%). Heldur hefur dregið úr aukningu sárasóttar yfir sumarmánuðina en tíðnin er samt há.