Hlusta þarf eftir þeim röddum sem ekki hafa heyrst í umræðunni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnaði alþjóðlega ráðstefnu um #metoo sem nú stendur yfir í Hörpu. Yfir 800 manns taka þátt í ráðstefnunni og um áttatíu fyrirlesarar stíga í pontu. 

Í ávarpi sínu fjallað forsætisráðherra um tilurð #metoo-hreyfingarinnar á Íslandi en einnig í alþjóðlegu samhengi. Hún lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að mæta þeim veruleika sem konur af erlendum uppruna afhjúpuðu í tengslum við #metoo. Huga þurfi að samspili kyns, kynþáttar og stéttar í tengslum við mismunun og áreitni, en sú umfjöllun er meðal lykilviðfangsefna ráðstefnunnar. Þá sagði forsætisráðherra að hlusta þyrfti eftir þeim röddum sem ekki hafa heyrst í umræðunni og nefndi til að mynda fatlaðar konur, konur í vændi og konur í láglaunastörfum.

„Ég notaði jafnframt tækifærið í ræðu minni til að þakka öllum þeim konum sem hafa lagt #metoo-hreyfingunni lið. Öllum þeim konum sem sögðu ég líka, hvort sem þær sögðu það opinberlega eða í lokuðum hópum. Við stöndum í þakkarskuld við þessar konur, sem og allar þær konur sem söfnuðu saman frásögnum og birtu þær ásamt kröfu um réttlátara samfélag. Þessi ráðstefna verður vonandi til að þétta raðirnar í mannréttindabaráttunni, heima sem að heiman,“ er haft eftir forsætisráðherra á vef ráðuneytisins. 

Ráðstefnan er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og er skipulögð í samvinnu við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Nú í haust verða tvö ár liðin frá því að #MeToo-bylgjan hófst árið 2017 þegar konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni.