Aðalkrafa BHM í komandi kjaraviðræðum verður að menntun verði metin til launa. Þá er þess einnig krafist að vinnuvikan verði stytt.
Þetta kom fram í máli Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns Bandalags háskólamanna, í Ríkisútvarpinu í gær.
Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar á almenna vinnumarkaðnum, t.d. formenn Eflingar og VR, hafa talað um mikilvægi þess að hækka lægstu launin svo unnt sé að búa í þessu landi með reisn, en Þórunn segir að BHM leggi eins og áður í kjaraviðræðum áherslu á að dýr menntun verði að skila sér í launum.
„Það er í raun aðalkrafa BHM að það sé ávinningur af því að afla sér háskólamenntunar hér á landi og hann sé viðunandi og komi m.a. fram í launakjörum,“ segir Þórunn.
Þetta þýðir í reynd að háskólamenn munu fara fram á sambærilegar hækkanir, eða meiri, en samið verður um á almennum vinnumarkaði — ef tekst að ná samningum þar. Það er aftur ávísun á svonefnt höfrungahlaup, sem varað hefur verið við að geti þýtt aukna verðbólgu og kaupmáttarrýrnun.
Fundur er boðaður hjá Ríkissáttasemjara í dag, en jafnvel er talið að Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness muni slíta viðræðum og boða til verkfallsaðgerða.