Höfrungar taki sér stöðu: Opinberir starfsmenn hafna krónutöluhækkunum

Líkur á að hið válega höfrungahlaup sé í uppsiglingu á íslenskum vinnumarkaði hafa aukist töluvert, því svo er að sjá að talsmenn stéttarfélaga opinberra starfsmanna hafni alfarið þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með í lífskjarasamningunum í síðustu viku.

Er blekið vart þornað á þeim samningum (og ekki búið að samþykkja þá í atkvæðagreiðslum hjá viðkomandi félögum) fyrr en Bandalag háskólamanna kemur fram með áherslur sínar á því að meta menntun til launa og nú hefur formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga krafist verulegra launahækkana og undirstrikað að krónutöluhækkun verði ekki leiðarljósið í samningum við ríki og sveitarfélög.

Maríanna Helgadóttir, formaður náttúrufræðinga, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, að félagið krefjist þess að laun verði ekki lægri en 430.000 á mánuði en segir að óskastaðan væri að laun háskólamenntaðra verði ekki undir 500.000 krónum á mánuði.

„Krónutöluhækkanir hafa ekki verið eitthvað sem okkur hefur hugnast og við höfum hafnað þeim eiginlega algjörlega. Ástæðan fyrir því að við höfnum krónutöluhækkunum er að þær fara mjög illa með launatöflur hjá okkur,“ segir Maríanna.