Faraldur Kórónuveirunnar Covid-19 er áfram á niðurleið hér á landi og lítið um samfélagslegt smit. Smit geta þó verið viðvarandi áfram næstu vikur og mánuði og hætta á hópsýkingum fyrir hendi, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag.
Þórólfur kvaðst meðvitaðir um að þjóðin bíði nú spennt eftir upplýsingum um fyrirkomulag veiruvarna hér á landi eftir 4. maí næstkomandi, þegar núgildandi takmarkanir eiga að falla úr gildi. Yfir þessu sé legið þessa dagana og hann vinni nú að bréfi til heilbrigðisráðherra þar sem hann leggi fram sínar tillögur. Þær verði svo kynntar betur eftir páska.
Þórólfur benti á að enn líti út fyrir að stór hópur í samfélaginu sé móttækilegur fyrir smiti. Þess vegna þurfi að tryggja með aðgerðum næstu mánaða að faraldurinn fari ekki aftur á flug og taka þurfi aftur upp harðari reglur. Hann sé meðvitaður um að staðan nú sé íþyngjandi fyrir mjög marga, en tilgangur hans með þeim sé skýr — að stöðva veiruna.
Aðspurður hvað taki við eftir 4. maí, sagði Þórólfur að þá verði hafist við að aflétta höftunum sem nú eru í gildi. En það verði að gerast í mjög hægum skrefum, sem hvert og eitt geti verið 3-4 vikur. Af þeim sökum sé ljóst að grípa þurfi til einhverra takmarkana og ráðstafana varðandi erlenda ferðamenn og aðra sem koma til landsins og um leið sé viðbúið að takmarka þurfi mjög stóra viðburði í sumar; fjöldasamkomur á borð við Þjóðhátíð, þjóðhátíðardaginn 17. júní, Hinsegin daga, Fiskidaginn mikla og Menningarnótt. Hann vildi ekki útlista nánar í hverju takmarkanir varðandi þetta muni felast.
Sóttvarnalæknir sagði ljóst að út árið verði nauðsynlegt að viðhalda tilmælumum handþvott og sprittnotkun, tveggja metra fjarlægðarmörk, bann við fjölmennum samkomum og fleira í slíkum dúr og hann lagði áherslu á þá skoðun sína, sem hann hefur vikið áður að, að ekki sé raunhæft að búast við bóluefni sem leysi vandann á næstu mánuðum.