Höfundur sænsku leiðarinnar dregur í land

Sænski sóttvarnalæknirinn Anders Tegnell.

Anders Tegnell, sænski sóttvarnalæknirinn, hefur í fyrsta sinn viðurkennt opinberlega að aðferðafræði hans og sú sem Svíar hafa vakið heimsathygli fyrir, hafi ekki reynst nægilega vel og leitt til of margra dauðsfalla.

Á fréttaveitu Bloomberg er vitnað til viðtals Tegnells í sænska ríkisútvarpinu, þar sem hann segir að Svíar myndu bregðast öðruvísi við ef þeir sætu andspænis sambærilegri prófraun að viðbættri þeirri vitneskju sem nú liggur fyrir. Viðbrögðin yrðu að líkindum einhvers staðar mitt á milli sænsku leiðarinnar og viðbragðra flestra annarra þjóða.

Viljinn hefur á undanförnum vikum fjallað ítarlega um sænsku leiðina og spurt landlækni og sóttvarnalækni um hana á upplýsingafundum Almannavarna. Sænska leiðin hefur falist í því að leyfa daglegum athöfnum borgaranna að hafa að mestu sinn gang þótt farsótt geisi. Samkomur umfram 50 manns hafa verið bannaðar, en að flestu öðru leyti gengur lífið sinn vanagang; skólar starfræktir, líkamsræktir og veitingastaðir opnir meðan allt slíkt var lokað annars staðar í álfunni.

Sænska leiðin hefur vakið aðdáun sumstaðar, en sætt einnig harðri gagnrýni. Það sem hafið er yfir vafa er að dánartalan í landinu tók mið af aðgerðaleysi stjórnvalda.

Dánartala í Svíþjóð er 43 af hverjum hundrað þúsund íbúum og það er með því mesta sem þekkist í veröldinni. Langt umfram nágrannalöndin Noreg og Svíþjóð, að ekki sé minnst á okkur Íslendinga.

Og nú hefur Tegnell í fyrsta sinn viðurkennt opinberlega að tala látinna í Svíþjóð sé allt of há. Það sé klárlega hægt að gera betur.

Ólík aðferðafræði í baráttunni við covid-19 hefur leitt til þess að Svíar njóta nú lítils trausts sóttvarnayfirvalda annarra ríkja þegar kemur að tilslökunum ferðatakmarkana og opnunar landamæra. Svíar og Norðmenn ákváðu að opna sín á milli, en Svíar fengu ekki að vera með. Fleiri lönd hafa sagt að ekki verði opnað strax fyrir ferðamönnum frá Svíþjóð; landinu sem eitt sinn var talið fyrirmynd allra þegar kom að heilbrigðismálum.

Og nú er aukinheldur að koma í ljós að sænska leiðin leiddi ekki til efnahagslegs ávinnings umfram aðrar þjóðir, eins og fylgjendur hennar höfðu látið í veðri vaka. Andersson fjármálaráðherra hefur viðurkennt að þjóðin horfi fram á versta samdrátt í landsframleiðslu frá því seinni heimsstyrjöldinni. Niðursveiflan sé um 7% sem er sambærilegt og í öðrum ríkjum Evrópusambandsins.

Yfirlýsing Tegnells nú kann að draga dilk á eftir sér. Margir Svíar vilja opinbera rannsókn á því hvernig haldið var á stjórnartaumunum í kórónukrísunni. Jimmie Akesson, formaður Svíþjóðardemókratanna, segir ummælin ótrúleg.

„Mánuðum saman hefur allri gagnrýni verið vísað á bug. Svíþjóð hefur gert allt rétt, allur heimurinn er í ruglinu, var sagt. Og nú allt í einu kemur þetta,“ sagði hann.