Bergmálsmælingar á stærð veiðistofns loðnu (kynþroska loðna sem hrygnir í vor) fóru fram á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni ásamt veiðiskipunum Aðalsteini Jónssyni og Berki dagana 4. – 15. janúar. Í heildina mældust aðeins um 214 þúsund tonn af kynþroska loðnu og er ljóst að magnið sem mældist er undir því sem þarf til að mælt verði með loðnuveiðum á yfirstandandi vertíð.
Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur gerir því skóna að hegðun loðnunnar ráðist meðal annars af loftslagsbreytingum.
„Lítilsháttar magn af kynþroska loðnu mældist út af Víkurál, en þar austur af reyndist einkum vera ókynþroska loðna, eða allt austur að Djúpál. Kynþroska loðnu var einkum að finna út af Strandagrunni og þaðan austur á Kolbeinseyjarhrygg en fullorðin loðna var ekki gengin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.
Rannsóknasvæðið var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum (Mynd hér að ofan). Út af Vestfjörðum hamlaði hafís yfirferð skipanna talsvert en þar að auki urðu þar frátafir vegna veðurs.
Í september síðastliðinn fóru fram mælingar á stærð loðnustofnsins á víðáttumiklu svæði norður af Íslandi og yfir landgrunni Austur-Grænlands. Þá mældust aðeins 238 þúsund tonn af fullorðinni loðnu og um 11 milljarðar af ungloðnu og var út frá því ekki heldur mælt með upphafsaflamarki fyrir núverandi vertíð. Þann 10. desember fór veiðiskipið Heimaey í leiðangur til könnunar á útbreiðslu og magni loðnunnar og fann svipað magn og mælst hafði í september, einkum vestan Kolbeinseyjarhryggjar.
Hafrannsóknastofnun og útgerðir uppsjávarskipa munu fara yfir ofangreindar niðurstöður og framhald samstarfs um mælingar og vöktun á loðnustofninum næstu vikurnar,“ segir ennfremur á vef Hafrannsóknarstofnunar.
Hlýnun á Íslandsmiðum
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á að loðnuafurðir hafi verið seldar fyrir 18 milljarða árið 2018 og verðmætið hafi líklega verið svipað eða áþekkt í fyrra.
„Síðustu 2 ár hefur loðan skilað um 1/10 hluta allra útflutningstekna sjávarútvegsins og meira hér áður. Ljóst er að þetta verður nokkurt högg fyrir þjóðarbúið. 2009 veiddist sama sem engin loðna heldur, bankahrunið og glannskapur óábyrgra aðila litaði samdráttinn í efnahagslífinu, en tekjutap vegna loðnuleysis bættist þar við.
En í stærra samhengi er útlitið líka slæmt. Í fjölskipaleiðangri í haust norður undir Grænland og Jan Mayen fannst lítið af ungloðnu enn eitt árið og ljóst að stofninn er í mikilli lægð. Slæmt er að missa loðnu úr veiðum og vinnslu, en ekki síður er loðnan mikilvæg fæða s.s. fyrir þorsk, ufsa, grálúðu og fleiri tegundir botnfiska,“ segir hann.
Einar veltir því fyrir sér hvort um afleiðingar loftslagsbreytinga sé að ræða.
„Í það minnsta mjög líklega vegna hlýnunar á Íslandsmiðum frá því um aldamótin og hörfun hafíssins sem hófst nokkru fyrr. Eins og kunnugt er hafa orðið breytingar á göngumynstri og loðnan leitar stöðugt norðar í kjörhita og væntanlega æti einnig.
Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar (2018) segir í kafla um loðnuna á bls. 136: „… Sú tilgáta hefur verið sett fram að norðlæg útbreiðsla seiða og rek þeirra yfir á A-Grænlenska landgrunnið, þ.e. á nýjar og sennilega lakari uppeldisstöðvar, séu þættir í orsakaferli sem leitt hefur til nýliðunarbrestsins.“
Þess er reyndar einnig getið í kaflanum að ógerningur sé að spá fyrir um þróun loðnustofnsins, vegna þess hve árgangar hafa verið misjafnir,“ segir Einar.