Hoggið í sjálfstæðismenn með rangfærslum, hræðsluáróðri og lygum

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Átökin sem geysa nú innan Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann og fleiri mál eru ekki einstök í stjórnmálasögunni. Flokkurinn hefur áður staðið af sér átök og klofning, en mestum vonbrigðum valda nú fyrrverandi forystumenn flokksins með yfirlýsingum sínum.

Þetta sagði Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri KOM á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, en hann er fv. aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og situr nú í miðstjórn flokksins.

„Mér finnst það mjög leitt að gamlir foringjar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið undir þessi sjónarmið og séu komnir þangað því Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf stært sig af því að vera alþjóðasinnaður flokkur sem vill standa í alþjóðasamstarfi,“ sagði Friðjón.

Friðjón R. Friðjónsson framkvæmdastjóri.

Þá segir Friðjón það spuna að Bjarni Benediktsson sé að hætta.

„Ég ætla að fullyrða það að Bjarni Benediktsson sé ekki að hætta í haust sem formaður Sjálfstæðisflokksins eða í pólitík. Það kæmi mér bara gríðarlega á óvart. Hann á enn erindi og það er margt að gera í þessari ríkisstjórn og hann er klárlega ekki að fara að gefast upp fyrir þessum látum og þessum áróðri sem kemur úr þessum ranni,“ sagði Friðjón.

Með stuðningi eigenda Morgunblaðsins

Meðal þeirra sem vitna til ummæla Friðjóns á fésbókinni í morgun, er Þorkell Sigurlaugsson, formaður málanefndar Sjálfstæðisflokksins. Hann segir Friðjón greina stöðuna hárrétt.

„Með rangfærslum, hræðsluáróðri og allt að því lygum er verið að höggva í raðir Sjálfstæðismanna. Að fyrrverandi og nýverandi ritstjórar Sjálfstæðisflokksins séu „liðsforingjar“ í þessu er ömurlegt og það gerist með stuðningi eigenda Morgunblaðsins. Blaðið er að stærstum hluta í eigu nokkur sjávarútvegsfyrirtæki sem Styrmir [Gunnarsson fv. ritstjóri] var nú ekki alltaf í pennavinasambandi við. Eigendur Morgunblaðsins og við áskrifendur og auglýsendur kostum núna dreifingu á þessari óværu sem ég kallaði svo óheppilega e.coli orkupakkasmit.

Þorkell Sigurlaugsson fv. framkvæmdastjóri.

Til viðbótar má nefna til sögunnar Eyþór Laxdal Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem er a.m.k. að nafninu til eigandi stórs hluta í Morgunblaðinu,“ segir hann.

Þorkell kveðst vona að fleiri hafi kjark til að berjast gegn þessum öflum, en þar sé Björn Bjarnason fv. ráðherra fremstur í flokki.

„Jafnleiðinlegt og tímafrekt það er að leiðrétta rangfærslur og lygar og vinda ofan af hræðsluáróðri, þá er það nauðsynlegt lýðræðislegri umræðu. Eftir því sem það dregst lengur verða þeir sem eftir standa eins og hjáróma raddir, sem verða að lokum barðir niður og niðurlægðir. Þá nær hægri populismi valdatökum í samfélaginu. Unga fólkið sem okkur er annt um og ungu kynslóðina sjálf ætti að hugleiða þetta vel.. Við megum ekki við því að fleira ungt fólk sjái ekki framtíð í að búa á Íslandi,“ segir Þorkell.