„Við erum einstaklingar, sem sjá að rekstur lággjalda flugfélags í eigu íslendinga er raunhæfur kostur og viljum að landsmenn taki sig saman til að endurreisa Wow air eða stofna nýtt lággjalda félag, sem er eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar í dag.“
Þannig hljóðar ákall á vefsíðunni hluthafi.com sem kynnt var til sögunnar í dag. Aðstandendur síðunnar eru ekki nafngreindir, en á forsíðunni segir að þeir einstaklingar sem standi að gerð hennar og væntanlegs almenningshlutafélags hafi ekki starfað hjá Wow air og séu ekki tengdir félaginu á nokkurn hátt.
„Við erum fyrrum viðskiptavinir Wow air og annarra flugfélaga. Við vitum að ef samkeppni minnkar eða fellur niður í samkeppnisumhverfi þá töpum við til lengri tíma. Auk þess vitum við að ferðaþjónusta á Íslandi hefur aukið hagvöxt og lífsgæði á undanförnum árum og viljum við tryggja þau gæði áfram.
Við teljum að ef Skúli og hans besta fólk getur endurreist Wow air þá eigum við sem einstaklingar í þessu landi að sameinast um að hjálpa til. Því hvetjum við einstaklinga og fyrirtæki til að leggja fram lítilsháttar hlutafé í krafti fjöldans og tryggja rekstur Wow air til framtíðar.
Við teljum að ef við náum að safna minnst 10-20 þúsund hluthöfum þá sé best að stofna almenningshlutafélag sem myndi fjárfesta í Wow air eða nýju lággjalda flugfélagi. Þá mætti hugsa sér að krefjast þess að hið nýja almenningshlutafélag fengi mann í stjórn til að tryggja hinum almenna hluthafa vernd,“ segir ennfremur á síðunni.
Þar eru jafnframt settar upp tvær sviðsmyndir um framhald málsins:
a) Ef Skúli og hans fólk nær ekki að reisa félagið við þá ætti að skoða alvarlega stofnun á nýju lággjalda flugfélagi í eigu almennings. Þetta er ekkert nema tilraun til að stuðla að frekari samkeppni, endurreisa hagvöxt og tryggja kaupmátt, sem enginn þarf að skammast sín fyrir. Ef ekki tekst að endurreisa Wow air og eða stofna nýtt lággjalda flugfélag þá verða engin hlutafjárloforð skuldbindandi og falla því niður ógild.
b) Ef Skúla (eða einhverjum öðrum) tekst að endurreisa félagið,og eða stofna nýtt félag. Þá eru líkur á að það auki samkeppni og hagvöxt. Þeir sem leggja þessu málefni lið geti eignast góða fjárfestingu, sem má selja á markaði í framtíðinni og eða breyta í farseðla svo að eitthvað sé nefnt.