„Honum finnst allir fífl nema hann sjálfur“

Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Viðskiptamoggans.

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta hjá Morgunblaðinu og höfundur nýrrar bókar um gjaldþrot WOW air, skýtur föstum skotum að ritstjóra Kjarnans í færslu á fésbókinni nú í kvöld. Tilefnið er gagnrýni Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, á forsíðufrétt Morgunblaðsins frá í gær um að sýra hefði fundist í fórum hælisleitanda á Suðurnesjum.

„Skoðanabloggið Kjarninn hefur nú lýst því yfir að fjölmiðlar megi ekki flytja tilteknar fréttir – þær standast nefnilega ekki pólitískan rétttrúnað forsvarsmanns vefsins. Sérfræðingurinn sá lýsti því reyndar yfir að það væri ekki ólöglegt að safna sýru úr rafgeymum bifreiða — en gleymdi því reyndar að þar var maðurinn sem í hlut átti ekki að gera það við rafgeyma úr eigin bílum heldur annarra. Hann var því að minnsta kosti þjófur, en líkast til í leiðangri sem endað hefði getað með skelfingu fyrir einhvern allt annan en hann sjálfan?“ segir Stefán Einar.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.

„Alvöru fjölmiðlar verða að vara sig á rausi af þessu tagi sem er aðeins gert til þess að klína ógeðfelldum stimplum á fólk. Þórður Snær hefur lengi verið með Morgunblaðið á heilanum en á sama tíma hefur hann þegið fjármagn frá mönnum sem helst hafa orðið frægir fyrir að eiga reikninga og fé á aflandseyjum. Hann gagnrýnir Fréttablaðið fyrir að dreifa blöðum frítt um borg og bí en finnst ekkert tiltökumál að gera það sjálfur undir merkjum Mannlífs. Honum finnst allir fífl nema hann sjálfur,“ bætir hann við.