Hörð átök innan ríkisstjórnarinnar um fjölskyldusameiningar Palestínumanna

Hart hefur verið tekist á undanfarnar vikur innan ríkisstjórnarinnar um stefnu varðandi fjölskyldusameiningar dvalarleyfishafa frá Palestínu. Dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra hafa gjörólíka sýn og stefnu í málaflokknum sem flækir málin og svo virðist sem umsóknir palestínskra flóttamanna um hæli hér séu miklu fleiri en á nágrannalöndunum.

Í baklandi Vinstri grænna er mikil óánægja með að lítið sem ekkert sé gert til að aðstoða fólk á flótta frá Gaza og koma því í skjól hér á landi. Hefur þeirri hugmynd verið fleygt að senda flugvél með lækna og hjúkrunarfólk til að freista þess að sækja þá sem hafa fengið leyfi til fjölskyldusameiningar, en eru fastir á átakasvæðunum eða hinumegin landamæranna.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur hins vegar viljað fara varlegar í sakirnar og fylgja fordæmi annarra Norðurlanda í þessum efnum. Ráðuneyti hennar sendi frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem munurinn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er undirstrikaður.

Þar segir: „Undanfarnar vikur hafa stjórnvöld átt í samráði við Norðurlönd og aðrar vinaþjóðir vegna dvalarleyfa og fjölskyldusameiningar palestínskra dvalarleyfishafa á Íslandi. Líkt og fram hefur komið er Ísland ekki með sendiráð á svæðinu, aðstoð annarra Norðurlanda takmörkuð og fjöldinn sem er undir er verulegur, langt umfram nágrannaríki Íslands miðað við höfðatölu, og í mörgum tilfellum einnig í eiginlegum tölum. Ísland sker sig enda úr meðal Norðurlanda þegar kemur að alþjóðlegri vernd, bæði í fjölda umsókna og veitingu.

Norðurlönd hafa í einhverjum tilvikum aðstoðað fólk yfir landamæri Gaza og Egyptalands, í flestum tilvikum ríkisborgara, fjölskyldur þeirra og dvalarleyfishafa sem höfðu dvalarleyfi fyrir 7. október og höfðu áður dvalið í viðkomandi landi. Að jafnaði er um fáa einstaklinga að ræða skv. upplýsingum stjórnvalda og hafa fjölskyldusameiningar almennt ekki verið veittar þar frá 7. október, ólíkt því sem hér er. Áfram er fylgst grannt með stöðu mála á Gaza og þeim möguleikum sem til staðar eru í þessum efnum,“ segir þar ennfremur.

Og í lok yfirlýsingarinnar kemur beinlínis fram andstaða ráðherrans við hugmyndum Vinstri grænna um að flóttamenn verði sóttir á átakasvæðin:

„Í lögum um útlendinga er hvergi kveðið á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að aðstoða dvalarleyfishafa til að komast til landsins, þ. á m. fjölskyldumeðlimi einstaklinga sem hafa fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Skyldan sem hvílir á íslenskum stjórnvöldum samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er sú að gefa út dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar séu lögbundin skilyrði uppfyllt. Slík dvalarleyfi takmarkast við kjarnafjölskyldu og eru því aðeins veitt nánustu aðstandendum einstaklinga sem búsettir eru hér á landi og hafa rétt til fjölskyldusameiningar. Allar frekari aðgerðir í þessum efnum væru því umfram lagaskyldu og eiga sér fá fordæmi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem stjórnvöldum hafa borist hafa Norðurlöndin fyrst og fremst aðstoðað eigin ríkisborgara, fjölskyldur þeirra og dvalarleyfishafa, sem höfðu dvalarleyfi fyrir 7. október, við að komast út af Gaza.“