Hörð gagnrýni orkumálastjóra á auðlindaráðuneytið

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri gagnrýnir umhverfis- og auðlindaráðuneytið harkalega í pistli sem hann reit um jólinn og sendi starfsmönnum Orkustofnunar.

„Reynsla okkar af nýtingu jarðvarma til húshitunar og síðar meir af jarðvarmavirkjunum til raforkunýtingar er miklvægur þekkingarforði sem hefur nýst vel til þess að koma af stað jarðhitavæðingu í hinum kaldari hluta Kínaveldis og Austur-Evrópu og jarðhitavirkjunum á Filipseyjum, í Indónesíu, Kenýja og Mið-Ameríku sem samanlagt eru að skila margfalt meiri vistvænni orku til heimsbyggðarinnar en þeirri sem okkar eigin framleiðsla gefur. 

Þarna hafa gegnt lykilhlutverki Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, sem hefur starfað innan Orkustofnunar samfleytt í meira en 40 ár og er fjármagnaður af Utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunaraðstoð okkar Íslendinga, sem og aðrar stofnanir og fyrirtæki eins og ÍSOR – Íslenskar orkurannsóknir, íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur, aðrir ráðgjafar, fjármálastofnanir og svona mætti lengi telja. Það er almennt viðurkennt að ein meginforsenda útflutnings á þekkingu og verkefnum og vörum er öflugur heimamarkaður sem gefur tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og þróa áfram þekkingu og reynslu í nærumhverfinu,“ segir Guðni.

„Í öðrum löndum eru slíkir öflugir vaxtarsprotar atvinnulífsins, sem falla vel að markmiðum um sjálfbæra samfélagsþróun á heimsvísu, í hávegum hafðir og sérstök rækt lögð við að halda við öflugum heimamarkaði og stutt við rannsóknir og innlenda þróun. Hér er okkar eigið auðlindaráðuneyti í annarri vegferð.

Öll starfsemi þar virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja,“ bætir hann við.

Sjá pistil orkumálastjóra.