Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, hefur sent forseta Sri Lanka samúðarkveðjur fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, eftir hin hrikalegu tíðindi gærdagsins þar sem ráðist var á kirkjur kristinna manna að morgni páskadags og einnig hótel þar sem gestkomandi dvöldu í borginni Colombo um bænadagana.
„Páskarnir eiga að bera með sér boðskap friðar og kærleika. Því hörmulegri voru tíðindin frá Sri Lanka, að íslamskir vígamenn hefðu myrt nær 300 manns í sjálfsvígsárásum á kirkjur og aðra staði,“ segir forseti Íslands.
„Ég sendi forseta landsins samúðarkveðjur fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Sæmilegur friður hefur ríkt í Sri Lanka í nær áratug, eftir blóðuga borgarastyrjöld árum saman. Vonandi blossar ekki upp óöld á ný í þessu fallega landi. Sú skylda hlýtur að hvíla á veraldlegum og andlegum leiðtogum þar að stilla til friðar og mæla ofbeldi aldrei bót,“ bætir hann við.