Jóni Bjarnasyni var hótað brottrekstri úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ef hann styddi tillögu um að aðildarumsókn Íslands að ESB yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur síðar sagt að afgreiðsla Vinstri grænna á aðildarumsókninni hafi verið mistök.
Jón skýrir frá þessu í pistli á vefsíðu sinni í dag, þar sem hann segir mikilvægt að Alþingi hafni 3.Orkupakka ESB, standi í lappirnar og verji fullveldi Íslands og sjálfsákvörðunarrétt í orkumálum.
„Orkupakki ESB nr 3 felur í sér staðfestingu á framsali forræðis orkumála Íslands til erlendra stofnana og erlendra dómstóla ef ágreiningsmál koma upp. Slíkt framsal getur verið ill afturkræft nema gegn háum skaðabótagreiðslum.
Ekkert í orkumálum Íslendinga krefst þess að Orkupakki ESB sé samþykktur og innleiddur nema þjónkun við vald ESB og einkvæðingargræðgi hagsmunaaðila sem svífa eins og hrægammar yfir og bíða þess að bráðin, orkuauðlindir Íslendinga verði þeirra,“ segir hann.
Jón segir athyglisvert að þrýstingur á innleiðingu Orkupakkans virðist ekki hvað síst vera frá einkavæðingarsinnum á Íslandi. Þeir megi ekki til þess hugsa að reynt verði að semja upp á nýtt við sameiginlegu EES nefndina.
„Sem þó er borðleggjandi að eigi að gera. Ég kynntist þessum þrýstingi í minni ráðherratíð og fann hve margir vildu bogna í hnjánum,“ bætir hann við.
„ESB umsóknin og atkvæðagreiðslan á Alþingi vorið 2009 klauf Vinstrihreyfinguna grænt framboð nánast í herðar niður, enda gekk sú atburðarás þvert gegn grunnstefnu flokksins og kosningaloforðum.
Við treystum forsætisráðherra okkar til að vera nú vitur fyrirfram, reynslunni ríkari:
Höfnum Orkupakka 3 eða sendum hann í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Jón Bjarnason.