Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra mælir í dag fyrir frumvarpi um undanþágu frá CE- merkingu á hlífðarfatnaði heilbrigðisstarfsfólks. Markmið frumvarpsins, sem unnið var í samstarfið við heilbrigðisráðuneytið, er að tryggja nægjanlegt framboð af hlíðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk þrátt fyrir hugsanlegan skort á slíkum búnaði í Evrópu vegna COVID-19 faraldursins.
Hratt gengur á birgðir af hlífðarfatnaði í landinu, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu, og óvissa um hvor framleiðendur CE-merkts hlífðarfatnaðar geti annað eftirspurn á Evrópska efnahagssvæðinu.
Samkvæmt frumvarpinu getur Vinnueftirlit ríkisins heimilað, að fenginni rökstuddri beiðni, innflutning á hlífðarfatnaði sem ekki er CE-merktur til nota hér á landi vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Innflytjendur verða þó að tryggja að hlífðarfatnaðurinn uppfylli viðurkenndar öryggis- og heilbrigðiskröfur. Ákvæðið tekur gildi um leið og það verður samþykkt og gildir til 1. janúar 2021.
Frumvarpið var unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Vinnueftirlit ríkisins.
Frumvarpið, sem dreift var á Alþingi í gær, má finna hérna.
„Það er mjög mikilvægt að við tryggjum nægjanlegt framboð af þeim búnaði sem heilbrigðisstarfsfólk notast við í baráttunni við COVID-19 faraldurinn. Við vitum að þetta er tímabundið ástand og við ætlum að tryggja áframhaldandi gott aðgengi að nauðsynlegum búnaði á meðan við förum í gegnum skaflinn,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.