Svartar sviðsmyndir almannavarna rættust nú í hádeginu, með því að hraunflæðið úr gosinu sem hófst kl. sex í morgun rann yfir yfir stofnlögn HS Veitna sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ og er lögnin nú í sundur og þykkan gufumökk leggur upp af svæðinu.
Þar með er ljóst, að ekkert heitt vatn kemur lengur frá Svartsengi með þeim afleiðingum að heitavatnslaust verður í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum.
Miðlunartankar geyma heitt vatn á svæðinu og þegar leiðslan fór þá er það eina vatnið sem er eftir á svæðinu. Því er mikilvægt að íbúar og fyrirtæki spari vatnið. Í markvissum sparnaði endast miðlunartankar væntanlega í 6 til 12 klukkustundir. Miðað við hefðbundna daglega notkun endast tankarnir í 3 til 6 klukkustundir, skv. upplýsingum frá HS Veitum.
Tímalengd heitavatnsleysisins er óljós á þessari stundu. Til að bregðast við slíkum atburði hefur verið unnið að lagningu nýrrar heitavatnslagnar í jörðu á þessu svæði. Búið er að leggja um 500 metra langan kafla þar sem ætlunin er að tengja ef gamla lögnin eyðileggst en það getur hinsvegar tekið einhverja daga að koma nýju lögninni í gagnið.
„Einnig er nú viðbúið að gripið verði til rafkyndingar sem rafdreifikerfi okkar er ekki hannað fyrir. Er biðlað til húseigenda að bíða með að hefja rafkyndingu í lengstu lög. Reynir svo á samtakamátt íbúa, ef til þess kemur, að hámarka rafkyndingu við 2,5 kW á hverja íbúð og fara á sama tíma í raforkusparandi aðgerðir, sjá ábendingar hér.
Hættan af of miklu álagi á rafdreifikerfið, jafnvel frá einni íbúð, er sú að öll gatan eða jafnvel allt kerfið slái út með tilheyrandi hættu á bilunum í jarðstrengjum eða dreifistöðvum, sem þá gæti tekið langan tíma að laga,“ segja HS Veitur í tilkynningu.
Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um gjall (gjósku)
Gosið hefur orðið til þess að gjall eða gjóska hefur farið til jarðar á Reykjanesinu, t.d. í Grindavík. Á vef Veðurstofunnar, segir að gjallið sem um ræðir sé frauðkennt og blöðruríkt og myndist þegar kvikuslettur snöggkólna í kvikustrókum.
Þetta ferli átti sér stað þegar gossprungan opnaðist í morgun (8. febrúar 2024). Gjallið er mjög blöðrótt og létt og getur því flust töluverðar vegalengdir undan vindi með gosmekki. Ástæða þess að gjóska fellur nú til jarðar í Grindavík, 3-5 km frá gossprungunni er samspil af hæð kvikustrókanna, vindaáttar, hitauppstreymis frá hraunbreiðunni og lágum lofthita.
Gjóska er samheiti yfir öll laus gosefni sem koma upp í eldgosi, óháð stærð og gerð, flytjast upp í andrúmsloftið og falla svo til jarðar. Hér á Íslandi þekkjum við gjósku vel úr sprengigosum eins og Grímsvatnagosum 2011 og 2004 og Eyjafjallajökli árið 2010. Í sprengigosum sundrast kvikan meira og myndar finni gjósku en gjóska myndast líka í hraungosum eins og nú eiga sér stað á Reykjanesskaga. Í hraungosum fellur gjóskan mest niður nærri gígum og sést því ekki vel utan við hraunbreiðuna en í maí 2021 þegar kvikustrókavirkni var sem mest í gosinu í Fagradalsfjalli féllu stórir gjóskumolar allt að 10 cm í a.m.k. 1 km fjarlægð frá gosupptökum.
Fara þarf varlega að handleika gjall sem getur verið beitt eins og gler. Ekki nota rúðuþurrkur á bílum til að losna við gjallið, heldur frekar blása eða skola því burtu, segir í tilkynningu Veðurstofu.