Hrósar utanríkisráðherra fyrir að blekkja ríkisstjórn og Alþingi

Þorsteinn Pálsson fv. forsætisráðherra. / Skjáskot Hringbraut.

„Almennt er rangt og ámælisvert að beita blekkingum. Í sumum tilvikum er það refsivert. En samt er það svo að blekkingar geta verið réttlætanlegar og jafnvel lofsverðar. Töframenn draga til að mynda kanínur upp úr pípuhöttum sínum öðrum til gleði og ánægju.

En því er á þetta minnst að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þurfti að grípa til kúnstar af þessu tagi til þess að geta lagt þriðja orkupakkann fyrir Alþingi. Og satt best að segja á hann fullt lof skilið fyrir vikið.“

Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli á Hringbraut, þar sem hann gerir stólpagrín að fyrirvörum þeim sem utanríkisráðherra hefur kynnt í deilunni um innleiðingu orkupakka þrjú.

„Þriðji orkupakkinn er hluti af regluverki Evrópusambandsins sem okkur ber að innleiða í íslenskan rétt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Stór hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins stöðvaði framgöngu málsins með fullyrðingum um að pakkinn skerti fullveldi Íslands. Til þess nutu þeir traustrar verndar í skeleggum skrifum Morgunblaðsins.

Björn Bjarnason, sem er formaður nefndar sem metur ávinning að aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins, sýndi ítrekað fram á með skýrum og gildum rökum að enginn málefnalegur fótur var fyrir fullyrðingum þingmannanna um aðför að fullveldinu. En allt kom fyrir ekki. Rökin höfðu ekki meiri áhrif en þegar vatni er stökkt á gæs.

Veik staða ríkisstjórnarinnar var orðin vandræðaleg

Við blasti að ríkisstjórnin var orðin minnihlutastjórn varðandi framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er ekkert smá mál því hann tekur til nær allra þátta í þjóðarbúskapnum. Þessi veika staða ríkisstjórnarinnar var orðin svo vandræðaleg að formenn Viðreisnar og Samfylkingar skrifuðu forsætisráðherra bréf fyrir rúmum mánuði og buðust til að hjálpa stjórninni að koma málinu fram.

Í framhaldi af því virðist utanríkisráðherra hafa fengið þá snjöllu hugmynd að taka rök Björns Bjarnasonar og kalla þau fyrirvara. Þeim var ekki stillt upp gagnvart Evrópusambandinu heldur ríkisstjórninni sjálfri og Alþingi. Og viti menn. Andstaðan í þingflokki sjálfstæðismanna gufaði bara upp,“ segir Þorsteinn ennfremur.

Í framhaldi af því virðist utanríkisráðherra hafa fengið þá snjöllu hugmynd að taka rök Björns Bjarnasonar og kalla þau fyrirvara.

„Með öðrum orðum: Utanríkisráðherrann tók kanínu upp úr pípuhatti sínum og þingmennirnir trúðu einfaldlega eigin augum. Það er yfirleitt óheiðarlegt að beita blekkingum í pólitík en í þessu tilviki var það gert með einkar saklausum en um leið aðdáunarverðum og áhrifaríkum hætti. Og það voru ríkir almannahagsmunir í húfi.

Þegar horft er á málavöxtu í þessu ljósi fer ekki á milli mála að utanríkisráðherra á lof skilið fyrir að hafa leyst málið. Engu breytir þar um þó að það hafi verið gert með þessum óvenjulega hætti. Lofið er ef til vill fremur verðskuldað einmitt fyrir þá sök,“ bætir hann við.

Og lokaorð Þorsteins Pálssonar eru þessi:

„Morgunblaðið lét hins vegar ekki segjast. Það heldur áfram að staðhæfa að þriðji orkupakkinn þýði glötun fullveldisins. Þeir sem styðja hann eru jafn miklir svikarar við þjóðina og þeir sem studdu Icesave að mati blaðsins. Innan VG leggst Ögmundur Jónasson á sveif með Morgunblaðinu.

Aðild að ESB fljótlega aftur á dagskrá með sömu rökum

Þessi afstaða Morgunblaðsins stafar ekki af andstöðu við ríkisstjórnina. Hún skýrist af hinu, að þar eru menn sem sjá fleiri leiki á taflborði stjórnmálanna en bara þann næsta.

Kjarni málsins er sá að staðhæfingarnar um að þriðji orkupakkinn feli í sér afsal fullveldisins eru reistar á sama sandi og staðhæfingarnar um að full aðild Íslands að Evrópusambandinu þýði endalok fullveldisins. Viðurkenni menn að staðhæfingarnar eigi ekki við varðandi þriðja orkupakkann flæðir líka undan þeim  þegar kemur að umræðu um fulla aðild. Þetta sjá ritstjórar Morgunblaðsins.

Það er ódýrt að fórna peði til að ná þriðja orkupakkanum fram. En sú fórn getur orðið dýrkeypt þegar skákin teflist lengra. Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru einu sinni búnir að komast að þeirri niðurstöðu að lauflétt sé að komast framhjá álitamálum með fullveldið með því einu að gera fyrirvara gagnvart sjálfum sér verða einfaldlega færri kostir um varnir þegar kemur að þeirri stundu  að aðildarviðræðurnar fara aftur á dagskrá. Það gæti þess vegna gerst innan þriggja ára.

Þessi hlið málsins er líka jákvæð.“