Hryllilegur harmleikur við Núpsvötn: Þrír látnir og fimm slasaðir

Hryllilegur atburður hefur orðið við Núpsvötn á Skeiðarársandi, rétt við Kirkjubæjarklaustur, nú á þriðja degi jóla. Þrír eru látnir og fimm slasaðir eftir umferðarslys, að sögn lögreglunnar á Suðurlandi. Fjórir voru fluttir með þyrlu til Reykjavíkur.

Í tilkynningu segir:

„Neyðarlínu barst í morgun kl. 09:42 tilkynning um að bifreið hafi verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn, í gegn um vegriðið þar og niður á áraurana þar fyrir neðan. Björgunarlið er komið á vettvang frá nálægum þéttbýliskjörnum og fleiri eru að lenda á vettvangi. M.a. 2 þyrlur LHG.

Bifreið varekið út af brúnni yfir Núpsvötn, í gegn um vegriðið þar og niður á áraurana þar fyrir neðan. 

Stjórnstöð almannavarna á Suðurlandi hefur verið virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi. Suðurlandsvegur er lokaður og ljóst að svo verður eitthvað fram eftir degi vegna vinnu við björgun og rannsókn vettvangs. Engin hjáleið er í boði framhjá vettvangi.“

Í upphaflegri tilkynningu frá greint frá því að fjórir væru látnir. Hið rétta er að þeir eru þrír, en fimm eru slasaðir, þar af amk þrír alvarlega. Átta voru í bílnum.

Fréttablaðið greinir frá því að um hafi verið að ræða breska ferðamenn.

Ríkisútvarpið greinir frá því að eitt barn sé meðal látinna.

Sjónarvottur sem Vísir náði tali af og var einn af þeim fyrstu á vettvang segir að aðkoman hafi verið skelfileg á slysstað. Hann telur að um ferðamenn hafi verið að ræða á bílaleigubíl af gerðinni Toyota Land Cruiser. 

Samkvæmt upplýsingum frá sjónarvottinum fór bíllinn út af á miðri brúnni en lenti þó ekki úti í ánni þar sem brúin er löng og að stórum hluta yfir sand. Brúin er mjög há, eða um átta metrar, einbreið og með útskotum til þess að mæta bílum. 

ATH: Upphaflegri fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt, þar sem fyrstu upplýsingar lögreglu greindu frá því að fjórir væru látnir og sjö farþegar hefðu verið í bílnum. Nýjustu upplýsingar lögreglu eru að átta hafi verið í bílnum og þrír séu látnir.