Hugh Short: Af hverju kom ríkið ekki að björgun WOW air

Short fer fyrir PT capital sem á í Nova og KEA hótelum hér á landi. Hér er hann ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni og Liv Bergþórsdóttur þegar tilkynnt var um söluna á Nova. Liv var einmitt stjórnarformaður WOW air.

Áhrifin af hruni WOW air munu fyrst koma fram í ferðamannageiranum og síðan verður þeirra vart í öðrum geirum á borð við verslun og þjónustu, bílasölu og fasteignamarkaði.

Þetta segir Hugh Short, en hann er forstjóri bandaríska fjárfestingafélagsins Pt Capital, sem á helmingshlut í íslenska fjarskiptafélaginu Nova og KEA-hótelum.

Fréttablaðið greindi fyrst frá skrifum Short, en hann setti þau fram á Linkedin fyrir þremur dögum.

Short segir að spurningin sé hversu hratt önnur flugfélög geti brugðist við breyttri stöðu með því að auka sætaframboð hingað til lands, hve mikil varanleg fækkun ferðamanna verði og hvernig íslenskt viðskiptalíf og stjórnvöld hér á landi muni bregðast við.

„Ég tel að til styttri tíma litið (2019) verði tekjur í áðurnefndum atvinnugreinum undir áætlunum. 2020 munu áhrifin líklega fara þverrandi,“ segir hann og telur mögulegt að langtímaáhrifin af falli WOW verði þau að íslensk ferðaþjónusta þroskist á þann veg að hún verði fyrirsjáanlegri og stöðugri með hægari vexti.

Slíkt gæti þýtt að ferðamenn úr milli- og efri tekjuhópum kæmu frekar hingað til lands og ferðaþjónustan þroskaðist fyrir vikið í meiri sátt við Íslendinga og umhverfið, eins og hann orðar það.

„Stóra spurningin sem ég velt fyrir mér, er hvers vegna íslenska ríkisstjórnin greip ekki inn í og aðstoðaði við að bjarga félaginu og koma með reyndari fagfjárfesta að því til að rétta reksturinn af. Öllu þessu hefði mátt komast hjá,“ segir Short.