Hugmyndabanki Viljans: Skuldavandi ferðaþjónustunnar leystur

Eftir Ívar Ingimarsson:

Ferðaþjónustan er í vanda. Þetta er tímabundið vandamál og ef við erum sammála um það, á auðvitað að hjálpa greininni í gegnum þann tíma svo hún geti haldið áfram að vera sá burðarstólpi samfélagsins sem hún hefur verið síðastliðin 10 ár.

Vinur minn sem þekkir vel til í bankakerfinu setti saman svofellda tilögu að lausn á skuldavanda greinarinnar.

Ferðaþjónustan skuldar 250 miljarða þegar búið er að mínusa frá flugrekstur. Ef ríkið myndi ákveða að taka yfir afborganir og vexti greinarinnar í 18 mánuði þá myndi það kosta um 30 miljarða. Að 18 mánuðum liðnum yrði sú upphæð sem hefur safnast saman færð inní nýtt lán sem myndi endurgreiðast ríkinu á 3-7 árum samhliða gamla láninu sem var fryst. Þetta nýja lán myndi bera vexti seðlabankans sem eru í dag 1,75%.

Svona gæti þetta gengið fyrir sig.

Frystilán

Banki og fyrirtæki reikna út vaxta- og afborgunarkostnað næstu 18 mánaða.

Seðlabanki/Ríkið lána banka fyrir upphæðinni svo hægt sé að geiða af láninu og bankinn fái sitt.

Að 18 mánuðum liðnum verður láninu breytt í nýtt “frystilán”. Þá er upphæðin tekin og útbúið nýtt lán þar sem yrði miðað við stýrivexti Seðlabankans (núna 1,75%).

Útfærsla og dæmi:

Banki og fyrirtæki koma sér saman um upphæð byggða á útreikningum á væntanlegum afborgunum og vöxtum næstu 18 mánaða . Ekki verður greitt af lánum á þessum tíma. Félag sem skuldar 100 miljónir mun borga árlega í afborganir og vexti ca 8 miljónir (fer eftir tegund lána) og á 18 mánuðum = 12 miljónir.

Ívar Ingimarsson rekur ferðaþjónustu á Austurlandi.

Bankinn kemur gögnum til Seðlabanka/ríkisins sem lána bankanum til að frysta tiltekið lán.

Að 18 mánuðum liðnum byrja afborganir að gamla láninu þar sem frá var horfið. Einnig hefst afborgun af nýju frystiláni til 3-7 ára allt eftir greiðslugetu fyrirtækisins og eru kjörin miðuð við stýrivexti Seðlabankans.

Félagið myndi nú halda áfram afborgunum á eldra láninu og nýja lánið að upphæð 12 miljónir yrði veitt til t.d. 3-7 ára og myndi haldast í hendur við stýrivexti Seðlabankans = í dag 1,75% (mán. afb. ca 150Þ).

Veð? Ríkisábyrgð/veð í fasteignum/veð í hlutabréfunum eða félaginu sjálfu.

Höfundur starfar í ferðaþjónustu á Austurlandi og stofnaði hugmyndasíðuna ideas-shared.


Við lifum á sögulegum tímum! Er ekki einmitt núna rétti tíminn til að hefja  umræðu um tækifæri og hugmyndir fyrir íslenskt athafnalíf til að snúa vörn í sókn?  Stofnun Hugmyndabanka Viljans (eftir hvatningu frá frumkvöðlinum Þór Sigfússyni) er viðleitni til að hvetja fólk og fyrirtæki í þessum efnum. Sendu okkur tillögur, hvatningu, reynslu- eða árangurssögur um hvernig það er að standa í rekstri og mæta samdrætti á gjörbreyttum tímum. Netfangið okkar er: viljinn (hjá) viljinn.is