Hugsanleg hópsýking á höfuðborgarsvæðinu: Yfir 200 manns í sóttkví

Ljósmynd: Landspítalinn.

Tvö tilfelli hafa nú verið staðfest innanlands af COVID-19. Í morgun greindist annað tilfelli sem talið er að tengist því sem staðfest var í gær. Fyrra tilfellið er upprunnið erlendis, eins og Viljinn greindi frá í gær og snýr að knattspyrnukonu sem kom frá Bandaríkjunum og greindist ekki með veiruna við skimun í Leifsstöð, en hið seinna innanlands.

Í tilkynningu frá Almannavörnum er bent á, að þetta sé fyrsta innanlandssmitið síðan um miðjan maí. Þá er reyndar ekki talið með að þrír lögreglumenn smituðust vegna handtöku rúmensks glæpagengis á Suðurlandi á dögunum. Eru þeir allir enn í einangrun.

Áætlað er að yfir 200 manns þurfi að fara í sóttkví. Unnið er að smitrakningu og er málið meðhöndlað sem hugsanleg hópsýking á höfuðborgarsvæðinu.

Unnið er samkvæmt sams konar verklagi og gert var þegar hópsýkingar áttu sér stað í Vestmannaeyjum, Bolungarvík og á Hvammstanga. Í undirbúningi er skimun á mjög stórum hópi fólks sem tengist málinu í samstarfi við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Íslenska erfðagreiningu.

Almannavarnir brýna fyrir almenningi að huga að einstaklingsbundnum smitvörnum og ítreka tilmæli til þeirra Íslendinga sem koma frá útlöndum að fara með gát fyrst um sinn, jafnvel þótt sýnataka hafi verið neikvæð í landamæraskimun.

Áréttað er að krafa um sóttkví í 14 daga heldur gildi sínu óháð niðurstöðu ef farið er í sýnatöku á meðan á sóttkví stendur.